Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um Play en ráðamenn þess tilkynntu fyrir tólf dögum að þeir vildu styrkja lausafjárstöðuna með hlutafjáraukningu um allt að fjóra milljarða króna. Í morgun kynntu þeir að stærstu hluthafar félagsins væru búnir að lofa 2,6 milljörðum.
„Það er auðvitað mjög gott að fá svona sterka traustsyfirlýsingu frá stærstu hluthöfum félagsins. Að því leytinu til er þetta mjög stór áfangi,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.
„En ég, allavegana persónulega, hef aldrei verið svartsýnn á það að okkur myndi ekki takast þetta. En við öndum nú bara með nefinu og hugsum til langs tíma.“
Formleg ákvörðun um hlutafjáraukninguna verður tekin á aðalfundi Play í næsta mánuði, þann 21. mars. Fyrir þann tíma þarf að afla 1.400 milljóna króna hlutafjárloforða til viðbótar. En hversu brýnt er þetta?
„Þetta er ekki brýnt. Þetta snýst um að fjármagna félagið til svona lengri tíma, fá nýjar flugvélar og styrkja félagið í framtíðarvöxt, en hefur aldrei snúist um lausafjárstöðuna núna eða næstu mánuði, eða neitt slíkt, þrátt fyrir ýmsar sögusagnir þar um. Þetta er bara lengri tíma fjármögnunarmál,“ segir Birgir.

Eftir hraðan vöxt undanfarin þrjú ár upp í tíu þotur verður óbreyttum fjölda flugvéla haldið í ár en Play stefnir síðan að því að fara í tólf þotur á næsta ári. En hefur umræðan um fjárhagsstöðuna skaðað félagið? Hefur dregið úr bókunum?
„Svona umræða er alltaf óþægileg. En sem betur fer hefur hún ekki skaðað okkur og hefur ekki dregið úr bókunum.“
En segir erfitt að stofna flugfélag.
„Það eru ekki þrjú ár síðan við tókum fyrsta flugið. Þannig að við erum bara á góðri siglingu og það er frábært að fá þessa hvatningu frá hluthöfum um að við séum á réttri leið og að menn ætli að standa við bakið á okkur,“ segir forstjóri Play.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: