Skoðun

Í fram­haldi af við­tali við Helgu Þórisdóttur

Kári Stefánsson skrifar

Helga Þórisdóttir forsetaframbjóðandi heldur áfram að lýsa þeirri skoðun sinni að Katrín Jakobsdóttir hafi brugðist hlutverki sínu sem forsætisráðherra þegar hún sagðist vera sammála sóttvarnarlækni um að vinnsla persónuupplýsinga Íslenskrar erfðagreiningar, sem Persónuvernd kvað ólöglega, hafi verið hluti af opinberum sóttvarnarráðstöfunum. Í þetta skiptið gerði hún það í viðtali við fréttastofu Bylgjunnar: Samkvæmt sóttvarnarlögum er það sóttvarnarlæknir sem ákveður til hvaða sóttvarnarráðstafana skuli gripið þegar farsótt geisar og hvernig þær skuli framkvæmdar. Þar af leiðandi er það lögum samkvæmt sóttvanarlæknir en ekki Persónuvernd sem ákvarðar hvað teljist sóttvarnarráðstöfun. Í miðri farsótt trompa sóttvarnarlögin persónuvendarlögin þegar ákvæði þeirra rekast á.

Nú skulum við hins vegar að gamni okkar gera ráð fyrir að þessi umdeildi árekstur hafi átt sér stað á öðrum tíma þegar engin farsótt geisaði. Deilan var um það hvort sú vinna sem Íslensk erfðagreining innti af höndum hafi verið vísindarannsókn eða þjónusta við sóttvarnir. Samkvæmt lögum um vísindarannsóknir á fólki er það hlutverk Vísindasiðanefndar en ekki Persónuverndar að ákvarða hvað sé og hvað sé ekki vísindarannsókn þegar það eru skiptar skoðanir á því.Þess vegna leit það út í okkar augum hjá Íslenskri erfðagreiningu að ákvörðun Persónuverndar stæðist ekki lög. Þar af leiðandi kærðum við þessa ákvörðun og héraðsdómur komst að sömu niðurstöðu og við og hnekkti ákvörðuninni. Þegar við horfum til hlutverks forsætisráðherra í þessu máli þá stóð hún frammi fyrir því að styðja annað hvort ákvörðun Persónuverndar sem héraðsdómur er búinn að segja okkur að standist ekki lög eða sóttvarnarlækni sem var að leiða, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, baráttuna við farsóttina. Ríkisstjórnin undir forsæti Katrínar hafði lagt blessun sína yfir allar þær ráðstafanir sem sóttvarnaryfirvöld gripu til og var því ábyrg fyrir framlagi Íslenskrar erfðagreiningar. Þar af leiðandi var stuðningur Katrínar við sóttvanarlækni sjálfsagður og í samræmi við mat ríkisstjórnar á hagsmunum samfélagsins.

Höfundur er forstjóri íslenskrar erfðagreiningar




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×