Skoðun

Opið bréf til for­seta­fram­bjóð­enda

Elín Erna Steinarsdóttir skrifar

Ég stend frammi fyrir erfiðu vali í komandi forsetakosningum þar sem um marga frambærilega frambjóðendur er að ræða og næsti forseti gæti orðið lykillinn að því að bjarga sameiginlegum eignum og auðlindum þjóðarinnar frá því að verða auðhringjum að bráð. Þess vegna vil ég spyrja ykkur eftirfarandi spurninga til að hjálpa mér og örugglega fleirum að velja.

1. Ætlar þú sem forseti fyrst og fremst að tala til þjóðarinnar á fallegu íslensku máli eða ætlarðu að hlusta á og virða alla óháð, stétt, stöðu, efnahag, kynferði, trúar, uppruna og öðru sem fólki kann að detta í hug að flokka okkur eftir?

2. Munt þú sem forseti taka þátt í pólitísku þrefi við þjóðina um stór, mikilvæg og umdeild lagafrumvörp eða hlusta á ákall þjóðar um beint lýðræði ?

3. Ætlar þú að vera hlutlaus og auðmjúkur gagnvart valdi þjóðarinnar eða hyggst þú taka afstöðu með stjórnvöldum og vera sjálfvirk undirskriftavél stjórnvalda?

4. Munt þú yfir höfuð lesa lög yfir og ígrunda áður en þú skrifar undir þau í nafni þjóðarinnar?

5. Berð þú virðingu fyrir því valdi (umboði) sem þjóðin veitir þér að skrifa undir lög fyrir hana?

6. Ætlar þú sem forseti að skrifa undir lög um eignasölu og framsal auðlinda eða leyfa eigendum að kjósa um það?

7. Munt þú sem forseti spyrja stjórnarskrárgjafann (þjóðina) álits (þjóðaratkvæðagreiðsla) eða munt þú skrifar undir lög sem fela í sér brot á stjórnarskrá?

8. Á vakt næsta forseta Íslands gæti þjóðin misst forræðið yfir fjörðum landsins, tapað fleiri dýrmætum eigum s.s. Landsvirkjun og Landsbankanum sem skila okkur tug milljörðum á hverju ári, auk fleiri dýrmætra eigna. Munt þú sem forseti taka þátt í þeirri eignaupptöku almenningseigna?

9. Munt þú sem forseti fara eftir stjórnarskrá eða hefðum ef þetta tvennt stangast á?

10. Munt þú sem forseti samþykkja skipan ráðherra sem eru þingmenn og sameina þar með löggjafarvald og framkvæmdavald sem á samkvæmt stjórnarskrá að vera tvö aðskilin valdsvið?

11. Munt þú tala fyrir því að dómarar séu ekki skipaðir af framkvæmdavaldinu (ráðherra) og vera þannig undir hæl þess?

12. Hefur þú þegið styrki eða aðstoð í kosningabaráttunni frá fjársterkum aðilum sem kunna að ágirnast sameiginlegar eigur okkar og auðlindir?

Svör óskast á opinberum vettvangi.

Höfundur er fyrrverandi leikskólastjóri.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×