Þessi tala hefur reyndar verið há hingað til, eða allt að 65 prósent, en hún hækkar töluvert nú eftir kappræðurnar sem fram fóru á fimmtudaginn í síðustu viku. Fjörutíu og níu prósent aðspurðra í sömu könnun, sem fréttastofan CBS lét gera, eru síðan á því að Donald Trump forsetaframbjóðandi hafi heldur ekki getu til að sinna starfinu.
Það sem er þó sérstaklega slæmt við nýju könnunina er sú staðreynd að um 45 prósent demókrata sem tóku þátt eru á þeirri skoðun að Biden ætti að stíga til hliðar og eftirláta öðrum að berjast við Trump.
Margir af hans helstu stuðningsmönnum hafa viðurkennt að Biden hafi ekki átt góðan dag í kappræðunum, þar á meðal kona hans Jill, varaforsetinn Kamala Harris og Barack Obama fyrrverandi forseti. Öll hafa þau hinsvegar sagt að það komi ekki til greina að hann stígi til hliðar.