Skoðun

Ó­rétt­læti mamons

Bubbi Morthens skrifar

Háir stýrivextir eru aðför gegn almenningi en gjöf til þeirra sem græða á þeim. Stýrivextir – þetta orð, ómæ, ómæ! Þeir reka fólk í röðum ofaní ginið á bönkum landsins, stýra því snyrtilega hverjir græða. Herra minn drottinn, ekki guð á himnum, en jú, peningaguðinn er eins og fimmfaldur Búdda, kjagandi um með uppglennt augu af græðgi. Hann fær aldrei nóg.

Krónan er vopn þeirra sem vilja viðhalda gjánni milli þeirra sem lifa vel og feitt og þeirra sem lifa í raun naumt og eru bundin á klafa krónunnar og moka framtíð barna sinni ofaní gin bankanna. Þeir ríku kaupa upp íbúðir á markaði og yfirbjóða allt og alla með sín fasteignafélög, ryksuga enga drullu bara gull. Unga fólkið á ekki sjens að kaupa sér heimili, auðurinn safnast á fárra hendur. Það rignir alla daga óréttlæti og meginþorri þjóðarinnar er rennblautur.

Hvernig getur svona lagað gerst?Jú, óhæf stjórnmálastétt, því miður, þó auðvitað sé að finna þar fólk sem vill vel en ræður öngu. Eina leiðin til að breyta þessu er í höndum fólks í næstu kosningum. Það er ömurð að ungt fólk geti ekki komið sér upp þaki yfir höfuðið. Leiguverð er svo hátt að Fagin í bók Dickens um Óliver Twist hefði fengið hjartaslag af gleði yfir þessari nýju stétt fermetrakúreka sem arka um með leigusamninga í byssuhólka stað.

Það mun einn daginn sjóða uppúr og þegar það gerist þá dugar ekki að læsa samviskuna inni, hún verður einfaldlega rifin úr brjóstum manna þar sem hún hímir bakvið hvíta rimla þeirra sem kynda bálið.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×