Skoðun

Má ekkert gera fyrir milli­stéttina?

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir skrifar

Vaxtakostnaður heimila jókst um meira en 30 milljarða í fyrra. Fórnarkostnaður fólks er mikill af ævintýralega háum vöxtum.

Viðreisn hefur aftur og aftur talað um þessa stöðu. Hina ógnarháu vexti krónunnar sem almenningur á Íslandi býr við í öllum alþjóðlegum samanburði. Vextir á Íslandi eru á pari við það sem þekkist í stríðshrjáðum ríkjum.

Verðbólga hefur núna verið yfir markmiðum í fjögur ár. Og það er reyndar ekki fyrr en haustið 2026 sem gert er ráð fyrir að verðbólga geti náð 2,5% markmiði Seðlabankans. Það yrði þá eftir næstum 80 mánaða samfellt verðbólgutímabil. Það er með því lengsta í sögunni.

Fólkið sem er að díla við erfið húsnæðislán fær núna þau skilaboð að ætlunin sé að hrifsa burt það úrræði að geta nýtt séreignasparnað til að greiða inn á húsnæðislán. Ég spurði forsætisráðherra í gær í fyrirspurnartíma á Alþingi út í þau plön ríkisstjórnarinnar að taka burt heimild fólks til að nýta séreignasparnað til að greiða inn á húsnæðislán.

Hvaða pólitísku skilaboð eru í því gagnvart millistéttinni ? Ég segi millistéttinni því þetta er úrræði sem launafólk notfærir sér. Er það málið að fólk sem fær verðbólguna á sig af fullum þunga hafi það of gott?

Núna er talað um að þetta nýtist sterkefnuðu stóreignafólki. Fólki sem á mjög mikið af eignum. Eins og moldríkt stóreignafólk sé mikið með húsnæðislán á fasteignum sínum. Stóreignafólk lifir af fjármagnstekjum en ekki af launum. Og stóreignafólk borgar ekki heldur í lífeyrissjóði af fjármagnstekjunum. Það er venjulegt millistéttarfólk sem finnur fyrir því að þessi heimild hverfur. Og þetta úrræði hefur reynst millistéttinni vel.

Upphæðirnar hafa síðan verið þær sömu í heilan áratug. Hafa sem sagt lækkað verulega að raunvirði og mörkin á þessum heimildum eru frekar lág. Önnur úrræði sem stjórnin hefur lagt upp nýtast eðlilega fyrst og fremst lægri tekjuhópum. Húsnæðisbætur, vaxtabætur og barnabætur.

Hér er eitt úrræði sem fer aðeins lengra upp tekjustigann. En hvað með það? Má ekkert gera fyrir millistéttina?

Höfundur er þingmaður Viðreisnar og fulltrúi í fjárlaganefnd.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×