Skoðun

Með bauna­byssu í kennara­verk­falli

Ólafur Hauksson skrifar

Verkfall er síðasta úrræði launþega í kjarabaráttu. Verkfall þarf því að bíta ef það á að hafa áhrif.

Kennarar eru hins vegar ekki í alvöru verkfalli sem ætlað er að bíta. Þeir eru í baunabyssuverkfalli sem hefur engin áhrif á viðsemjendur þeirra. Einu áhrifin eru að ergja þá sem verða fyrir baunaskotunum - börn í nokkrum skólum, foreldra þeirra, afa og ömmur, önnur skyldmenni svo og vinnuveitendur foreldranna.

Samninganefnd ríkis og sveitarfélaga missir ekki svefn þó nokkur lítil börn úti í bæ séu svipt skólastarfinu. Því síður samninganefnd kennara. Enda eru samningafundir fáir og ekkert að gerast. Formaður kennara krefst þess að sveitarfélögin og ríkisstjórnin höggvi á hnútinn og láti undan kröfunum. Samt veit hann að ríkisstjórnin hefur ekkert umboð til þess.

„Okkur verður ekki hvikað,“ segir kennaraformaðurinn. Er ætlun hans þá að halda úti skæruverkföllunum þangað til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð? Eiga að líða mánuðir þangað til börnin komast aftur í skólann?

Baunabyssuverkföllin hafa engu breytt og munu engu breyta í þessari kjarabaráttu. Það er hreinlegast fyrir kennaraforystuna að láta gott heita í þeim efnum. Eða þá ganga rösklega til verks og boða allsherjarverkfall kennara.

Það skiptir engu máli í þessari umræðu hvort kennarar eigi skilið betri kjör eða ekki. Lausn á því fæst ekki núna, þegar ríkisstjórnin er varla nema nafnið, kosningar framundan og sveitarfélögin að klára fjárhagsáætlanir. Réttast væri að kennarar tækju sér hlé frá því að reyna að þvinga fram kjarabætur og héldu svo samtalinu áfram eftir kosningar við stjórnvöld sem hafa skýrt umboð og bera ábyrgð.

Höfundur er afi nemanda í Leikskóla Seltjarnarness.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×