Skoðun

Vegurinn heim

Tinna Rún Snorradóttir skrifar

Það er búið að vera ánægjulegt að sjá hvernig Vestfirðir hafa vaxið og dafnað á síðustu árum. Fólki fjölgar og fjölbreyttari atvinnutækifæri verða til með vexti fiskeldis, ferðaþjónustu og Kerecis. Ekki má gleyma Háskólasetri Vestfjarða sem laðar að sér erlenda nemendur sem mörg hver setjast hér að og taka þátt í að skapa verðmæti og auðga vestfirskt samfélag.

Þessi vöxtur á undanförnum árum gerði mér kleift að flytja aftur heim eftir háskólanám erlendis og finna vinnu sem passaði menntun minni og áhugasviði sem var ekki svo sjálfsagt hér á árum áður. Eftir að ég kom heim hefur ég fundið fyrir töluverðum áhuga frá vinum og kunningjum sem ólust upp hér fyrir vestan, fóru suður í háskólanám og sjá tækifæri til að koma aftur heim og taka þátt í uppbyggingunni sem nú er í gangi.

Nútímasamfélag verður að geta boðið upp á tryggar og öruggar samgöngur þar sem íbúar sem og aðrir þurfa ekki að hafa áhyggjur af snjóflóðahættu eða óvissu um hvort bíllinn komist í gegnum snjóskafla á hálendisvegum.

Fjárfesting í samgöngubótum er besta leiðin til að gera Vestfirði að samkeppnishæfum búsetukosti fyrir ungt fólk sérstaklega núna þegar fjölbreytt og spennandi atvinnutækifæri eru í boði á svæðinu. Með bættum samgöngum munu tækifæri til atvinnusköpunar aukast þvert á byggðarlög, sem mun gera svæðið sem heild enn meira aðlaðandi til verðmætasköpunar.

Ég vil hvetja stjórnvöld og fólk í framboði til að leita allra leiða til að bæta samgöngur á Vestfjörðum og leggjast á árarnar með Innviðafélagi Vestfjarða um að búa til samgöngusáttmála fyrir Vestfirði. Því samgöngur eru ekki bara verkleg framkvæmd; þær eru lífæð samfélaga og forsenda þess að Vestfirðir geti haldið áfram að vaxa og laðað ungt fólk aftur heim.

Höfundur er rannsóknar- og þróunarstjóri hjá Bláma.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×