Skoðun

Engin eftir­spurn eftir vindorku­verum

Eldur S. Kristinsson skrifar

Vindorka hefur verið eitt af gæluverkefnum fráfarandi ríkisstjórnar sem hefur notið góðs af þeim opna krana sem hefur verið úr ríkissjóði til handa þeim sem telja sig vera ómissandi. Í þessari kosningabaráttu sem er nú að ná hámarki hefur þessu umræðuefni brugðið fyrir þegar orkuþörf Íslendinga og loftslagsmálin eru rædd á meðal frambjóðenda.

Í allri þessari umræðu gleymist jafnan að fólkið í landinu – þeir sem í raun eiga löggjafarvaldið hafa sitthvað um þetta að segja. Í Norðurárdal í Borgarfirði eru áform um að pota upp einhverjum vindmyllugarði og virðist Borgarbyggð ætla aðgerlega að gera þetta í andstöðu við nær allra íbúa þar á svæðinu.

Vindorkuver á Esjunni

Hvernig myndu íbúar höfuðborgarsvæðisins lítast á blikuna ef fyrirhugað væri að pota þessum óskapnaði upp á Esjuna?

Og nú svelgdust örugglega einhverjir á kaffisopanum og aðrir hrista hausinn yfir þessu rugli í mér. En stöldrum aðeins við.

Esjan er kjörinn staður fyrir vindorkuver. Það er tiltölulega flatt uppi á Esjunni, samgöngur eru góðar og aðgengi þangað mjög gott. Það er einnig stór kostur að það er ekki langt í dreifikerfið. Þetta er m.ö.o. „príma staðsetning“!

Hvers vegna ættu Borgfirðingar að sætta sig við svona yfirgang, en ekki íbúar höfuðborgarsvæðisins?

Það hlýtur að vera augljós krafa að komandi ríkisstjórn og Alþingi Íslendinga standi með almenningi og íslenskri náttúru og heimila ekki vindorku um heiðar, sveitir og strendur landsins. Vindorkuver valda óafturkræfum umhverfisspjöllum, stórfelldu landraski, sjón- og hljóðmengun, skaða vistkerfi og samfélög og ógna líffræðilegum fjölbreytileika. Það verður að búa þannig um hlutina að löggjafinn skapi sterkan lagaramma svo orkuinnviðir þjóðar, framleiðsla og dreifing, verði í almannaeigu til framtíðar.

Höfundur er oddviti Lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×