Viðskipti innlent

Fyrr­verandi bæjar­stjóri kaupir Pylsu­vagninn á Sel­fossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Nýju eigendurnir, þau Fjóla og Snorri, ásamt Ingunni (t.v.) og Þórdísi (t.h.) við Pylsuvagninn á Selfossi, sem staðsettur er við brúarsporðinn við Ölfusárbrú.
Nýju eigendurnir, þau Fjóla og Snorri, ásamt Ingunni (t.v.) og Þórdísi (t.h.) við Pylsuvagninn á Selfossi, sem staðsettur er við brúarsporðinn við Ölfusárbrú. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Mæðgurnar og eigendur Pylsuvagnsins á Selfossi þær Ingunn Guðmundsdóttir og Þórdís Sólmundsdóttir hafa selt pylsuvagninn, sem stendur við Ölfusárbrú. Nýju eigendurnir eru þau Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Árborg og núverandi bæjarfulltrúi og Snorri Sigurðarson, athafnamaður. Þau taka við rekstrinum 1. janúar 2025. Kaupverð er trúnaðarmál.

„Ég er mjög ánægð með nýju eigendurna enda er Fjóla fyrrverandi starfsmaður pylsuvagnsins og Snorri er stjúpsonur minn, þannig að þetta gæti ekki verið betra. Ég er sjálf búin að reka vagninn í rúm 40 ár og því tími til komin að gera eitthvað annað. Nú er það eldri borgara starfið og lifa og njóta með mínu fólki“, segir Ingunn. 35 stelpur vinna í pylsuvagninum og mun þær væntanlega allar halda störfum sínum hjá nýjum eigendum. „Þetta er fyrst og fremst gleðidagur því pylsuvagninn fer í góðar hendur“, bætir Ingunn við.

Það var gleðistund hjá fjölskyldum Ingunnar og Þórdísar og Snorra og Fjóla eftir að skrifað var undir kaupsamninginn á pylsuvagninum. Kaupverðið er trúnaðarmál.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Við erum mjög lukkuleg með kaupin og það leggst allt vel í okkur með pylsuvagninn enda vinsæll skyndibitastaður, sem hefur gengið ljómandi vel hjá Ingunni og Þórdísi. Við ætlum að ráða sérstakan rekstrarstjóra og svo verður þetta allt í sömu skorðum eins og það hefur verið í gegnum árin,“ segir Fjóla en hún vann í mörg ár í vagninum og kann því réttu handbrögðin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×