Í fréttatilkynningu þess efnis segir að Birta Ósk muni koma til með að stýra áframhaldandi þróun á Avia hugbúnaðarlausninni. Akademias tóku yfir rekstur Avia á dögunum.
Jenna Kristín muni bera ábyrgð á þjónustu og ráðgjöf til viðskiptavina ásamt því að tryggja að öll þjónusta Akademias, til að mynda framleiðsla námsefnis, sé í takt við væntingar og stefnu fyrirtækisins.
Bætast í hóp fjölda sérfræðinga í fræðslumálum
„Við erum ákaflega stolt af því að fá þær Jennu og Birtu til liðs við okkur en hjá Akademias starfa 22 sérfræðingar í fræðslumálum. Akademias hjálpar vinnustöðum að greina fræðsluþarfir og skipuleggja fræðsluþarfir, AVIA fræðslu- og samskiptakerfið, framleiðslu á sértækum námskeiðum og á stærsta rafræna fræðslusafn á Íslandi með yfir 180 námskeiðum,“ er haft eftir Guðmundi Arnari Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Akademias.
Forritari og viðskiptafræðingur með áhuga á mannauðsmálum
Þá segir að Birta hafi útskrifast með Bsc-gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2022 og hafi sinnt kennslu í fjölmörgum námskeiðum tölvunarfræðideildar háskólans frá árinu 2020. Hún hafi hafið störf sem forritari hjá Avia í upphafi árs 2022 þar sem hún hafi verið lykilaðili í þróun og uppbyggingu hugbúnaðarlausnarinnar. Áður en hún tók við nýju hlutverki hjá Akademias hafi Birta starfað sem bakendaforritari hjá Dohop.
Jenna Kristín sé gift þriggja barna móðir sem hafi brennandi áhuga á mannauðsmálum og öllu sem kemur að mannlegum samskiptum og hafi unnið við mannauðsmál í rúm sex ár. Jenna hafi lokið BS í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst, meistaragráðu í forystu og stjórnun og meistaragráðu í markaðsfræði frá sama skóla. Hún hafi starfað sem deildarstjóri mannauðs hjá Öryggismiðstöðinni og hafi víðtæka þekkingu og reynslu af stjórnun mannauðsmála.