Sport

Sættir sig við viku í við­bót í banni þrátt fyrir litla sem enga sök

Sindri Sverrisson skrifar
Iga Swiatek verður ekki lengi frá keppni.
Iga Swiatek verður ekki lengi frá keppni. Getty/Robert Prange

Hin pólska Iga Swiatek getur nú farið að einbeita sér að því að endurheimta efsta sæti heimslistans í tennis eftir að niðurstaða fékkst í máli gegn henni vegna ólöglegrar lyfjanotkunar.

Swiatek samþykkti eins mánaðar bann en frá 12. septemer til 4. október sat hún af sér stærstan hluta bannsins og á því aðeins viku eftir. Hún verður sem sagt laus allra mála 4. desember.

Þessi 23 ára tennisstjarna greindist með hjartalyf (trimetazidine) í lyfjaprófi í ágúst síðastliðnum, utan keppni, þegar hún var í efsta sæti heimslistans.

Rannsókn ITIA, alþjóðlegrar heilindastofnunar innan tennisheimsins, leiddi í ljós að Swiatek hefði innbyrt þetta ólöglega lyf vegna þess að það hefði blandast við annað, löglegt lyf sem hún hafði neytt.

Niðurstaðan var því sú að Swiatek bæri ekki nema mjög takmarkaða sök í málinu, né hefði hún sýnt af sér gáleysi.

Eins og fyrr segir var Swiatek upphaflega dæmd í bann 12. september en hún áfrýjaði þeim dómi og hefur mátt keppa frá 4. október. Hún missti engu að síður af þremur mótum og þurfti að gefa frá sér verðlaunafé á Cincinnati Open, þar sem hún komst í undanúrslit, en það var fyrsta mót eftir lyfjaprófið sem hún féll á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×