Handbolti

Fær­eysku stelpurnar svöruðu frá­bær­lega fyrir sig

Sindri Sverrisson skrifar
Jana Mittún, hér í greipum Tabea Schmid, er úr mikilli handboltafjölskyldu og skoraði sjö mörk fyrir Færeyjar í kvöld.
Jana Mittún, hér í greipum Tabea Schmid, er úr mikilli handboltafjölskyldu og skoraði sjö mörk fyrir Færeyjar í kvöld. EPA-EFE/Liselotte Sabroe

Færeyska kvennalandsliðið í handbolta lék í fyrsta sinn í lokakeppni Evrópumóts í kvöld, þegar það mætti heimakonum í Sviss í D-riðli mótsins.

Færeysku stelpurnar voru dyggilega studdar í þessari frumraun sinni en þrátt fyrir magnaða endurkomu urðu þær að lokum að sætta sig við naumt tap, 28-25.

Svisslendingar, sem unnu tvo eins marks sigra gegn Íslandi í undirbúningi sínum fyrir EM, virtust ætla að gjörsigra Færeyjar í fyrri hálfleiknum.

Sviss var 13-7 yfir að honum loknum, og náði svo tíu marka forskoti, 19-9.

Eftir að hafa tekið leikhlé hrökk færeyska liðið hins vegar svo sannarlega í gang og þegar enn voru rúmar tvær mínútur eftir var munurinn kominn niður í aðeins eitt mark, 25-24.

Daphne Gautschi sá hins vegar til þess að Sviss færi með sigur af hólmi en hún skoraði þrjú síðustu mörk liðsins, og endaði markahæst með átta mörk. Hjá Færeyjum voru Pernille Brandenborg og Jana Mittún markahæstar með sjö mörk hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×