Körfubolti

Rondey rakaði af sér hárið til stuðnings Skúla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Skúla Björgvini Sigurðssyni og Rondey Robinson varð vel til vina á 10. áratugnum.
Skúla Björgvini Sigurðssyni og Rondey Robinson varð vel til vina á 10. áratugnum. stöð 2 sport

Fáir bandarískir leikmenn hafa sett jafna sterkan svip á íslenskan körfubolta og Rondey Robinson sem lék með Njarðvík á 10. áratug síðustu aldar. Í öðrum þætti Kanans var góðverk Rondeys rifjað upp.

Rondey kom upphaflega til Njarðvíkur sem spilandi þjálfari haustið 1990. Hann hætti entist ekki lengi í þjálfarastarfinu en spilaði með Njarðvík til 1996. Á þeim tíma urðu Njarðvíkingar þrívegis Íslandsmeistarar og einu sinni bikarmeistarar.

Skúli Björgvin Sigurðsson er stuðningsmaður Njarðvíkur og kynntist Rondey þegar hann var ungur.

„Í sögunni hjá Njarðvík er Rondey mjög ofarlega ef ekki efstur af þeim erlendu leikmönnum sem hafa komið hingað,“ sagði Skúli í öðrum þætti Kanans.

„Lífið utan körfuboltans var erfitt því eftir æfingu kom ég heim í íbúðina mína og var þar einn. Það var lítill strákur þarna, Skúli, sem bankaði upp á hjá mér og kynnti sig. Hann hefur verið eins og litli bróðir minn síðan þá. Hann hjálpaði mér að komast í gegnum allt,“ sagði Rondey í Kananum.

Klippa: Kaninn - Góðverk Rondeys Robinson

Þegar Skúli var unglingur greindist hann með krabbamein. Þá studdi Rondey við bakið á honum.

„Ég greindist með krabbamein þegar ég 15-16 ára. Ég vissi að þetta væri að koma, að ég myndi missa hárið. Hann sá strax á mér á mér hvað mér brá, fór strax inn á bað, náði í klippurnar og sagði: Svo þegar ég er búinn að raka þig rakar þú mig,“ sagði Skúli.

„Við rökuðum báðir af okkur hárið og ég hef verið sköllóttur síðan þá,“ sagði Rondey hlæjandi.

„Fyrir svona ungan mann og fyrir þessa stjörnu að gera þetta fyrir mig; þetta var risastórt,“ rifjaði Skúli upp.

Innslagið úr Kananum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Ævintýraleg upphafsár Kananna í körfu á Íslandi

Heimildarþáttaröðin Kaninn verður frumsýnd á Stöð 2 og Stöð 2 Sport á sunnudagskvöldið. Í fyrsta þætti verður fjallað um ævintýraleg upphafsár um miðbik áttunda áratugarins þegar fyrstu Kanarnir hófu að koma hingað til lands til að leika sem atvinnumenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×