Viðskipti innlent

Ný gervigreindarlausn opnar fyrir sólarhringsþjónustu 1819

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri Bergþór og Victor Pálmason frá 1819; Daniel Spanó, Ástvaldur Guðmundsson og Róbert Híram frá Menni.is.
Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri Bergþór og Victor Pálmason frá 1819; Daniel Spanó, Ástvaldur Guðmundsson og Róbert Híram frá Menni.is.

Íslenska upplýsingaveitan 1819 og gervigreindarfyrirtækið Menni hafa skrifað undir samstarfssamning um innleiðingu gervigreindarlausna sem gerir 1819 kleift að bjóða viðskiptavinum upp á sólarhringsþjónustu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Menni.

Þar segir að samningurinn feli í sér samstarf þar sem Menni innleiði hátæknilausnir á sviði gervigreindar til að svara fyrirspurnum. Þannig náist markmið um að bjóða upp á bæði mannlegan og stafrænan stuðning.

Þá kemur fram að raddmenni Mennis muni í upphafi svara símtölum í númerið 1819 utan hefðbundins opnunartíma, en með tímanum hyggist 1819 nýta fleiri lausnir frá Menni og auka þjónustuframboð sitt með aðstoð gervigreindar.

Vonast til að opna þjónustuna fljótlega

Menni var stofnað árið 2023 af Daníeli Spanó, Róberti Híram og Ástvaldi Ara. Fyrirtækið sérhæfir sig í hagnýtingu gervigreindar til að einfalda og bæta þjónustu fyrir fyrirtæki.

Í dag býður Menni upp á þjónustulausnirnar Spjallmenni (e. chatbot), Póstmenni (tölvupóstlausn) og Raddmenni (raddlausn), sem allar miða að því að gera þjónustuferla einfaldari, hraðari og skilvirkari.

„Við erum spennt fyrir þessu verkefni með 1819. Lausnir okkar falla vel að starfsemi þeirra, og við búumst við að geta opnað fyrir þjónustuna snemma á nýju ári,” segir Daníel Spanó, framkvæmdastjóri Menni, um samstarfið.

1819 er upplýsingaveita sem veitir fyrirtækjum og einstaklingum fjölbreytta þjónustu, þar á meðal símsvörun, úthringiverkefni og veitir markaðsaðstoð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×