Erlent

Þrýstingur eykst á Starmer að hann fari sömu leið og Frakkar

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Macron Frakklandsforseti lýsti því yfir í gær að Frakkar viðurkenni sjálfstæði Palestínu. Frakkland er fyrsta G7 ríkið sem tekur þá ákvörðun. 
Macron Frakklandsforseti lýsti því yfir í gær að Frakkar viðurkenni sjálfstæði Palestínu. Frakkland er fyrsta G7 ríkið sem tekur þá ákvörðun.  AP Photo/Michel Euler

Yfirvöld í Ísrael og Bandaríkjunum hafa fordæmt ákvörðun Emmanuels Macrons Frakklandsforseta um að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki.

Macron greindi frá þessari ákvörðun sinni í gærkvöldi og segist ætla að gera það formlega í september á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Yfirlýsing Macron markar tímamót í afstöðu Evrópuríkja gagnvart stríðsrekstri Ísraela á Gasa.

Í umfjöllun France24 segir að Frakkland sé nú stærsta og valdamesta ríkið í Evrópu sem hefur viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki. Frakkland er nú í hópi 142 ríkja sem hafa viðurkennt Palestínu sem ríki en bæði Ísrael og Bandaríkin eru andvíg slíkri viðurkenningu.

Viðbrögðin frá þeim létu heldur ekki á sér standa og Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels segir að Frakkar séu með þessu að verðlauna hryðjuverkastarfsemi Hamas. Marco Rubio gagnrýndi Macron einnig og sagði ákvörðunina einkennast af kæruleysi.

Fulltrúar ríkjanna tveggja í friðarviðræðum í Katar sem nú eru í gangi yfirgáfu síðan fundinn í gærkvöldi að því er breska ríkisútvarpið greinir frá. Bandaríkjamenn segja ákvörðunina byggða á þeirri trúa að Hamas samtökin vilji ekki semja um frið og Ísraelar gáfu enga skýringu á brotthvarfi sínu.

Breski forsætisráðherrann Keir Starmer ætlar að ræða við Macron og þýska kanslarann Friedrich Merz um næstu skref en þingmenn í breska þinginu hafa sett aukinn þrýsting á Starmer að hann fylgi fordæmi Macrons og viðurkenni Palestínu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×