Erlent

Maxwell biðlar til Hæsta­réttar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Maxwell var vinur og stundum kærasta Epstein.
Maxwell var vinur og stundum kærasta Epstein. Getty/Joe Schildhorn/Patrick McMullan

Ghislaine Maxwell, vinkona Jeffrey Epstein sem var dæmd í 20 ára fangelsi fyrir mansal og fleiri brot, hefur farið þess á leit við Hæstarétt Bandaríkjanna að dóminum yfir henni verði snúið.

Lögmenn Maxwell segja samkomulag sem Epstein gerði við ákæruvaldið á Flórída árið 2007 hefði átt að vernda skjólstæðing þeirra frá ákærum í New York. Samkomulagið var og er afar umdeilt en Epstein játaði á sig tvö kynferðisbrot gegn því meðal annars að fjórir nafngreindir einstaklingar og aðrir mögulegir samverkamenn yðru ekki sóttir til saka.

Dómsmálaráðuneytið hefur áður fært fram þau rök að samkomulag gert í Flórída gildi ekki í New York en þess ber að geta að starfsmenn ráðuneytisins ræddu við Maxwell á dögunum í tengslum við Epstein-málið og vangaveltur eru uppi um hvort henni verði boðinn einhvers konar samningur gegn samvinnu.

Maxwell er talin geta uppljóstrað um ýmislegt tengt Epstein sem ekki hefur komið fram en margir hafa bent á augljósan hagsmunaárekstur, þar sem Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður koma víða við í hinum margumræddu Epstein-skjölum.

Samkomulag dómsmálaráðuneyti hans við Maxwell gæti þannig orkað tvímælis.

Samkomulagið sem Epstein gerði við yfirvöld árið 2007 hefur verið mikið rætt síðustu daga en saksóknarinn í málinu, Alexander Acosta, sagði síðar frá því að honum hefði verið tjáð að Epstein hefði tengsl við leyniþjónustuna og að hann ætti að „láta hann vera“.

Acosta var ráðherra í fyrri ríkisstjórn Trump en sagði af sér eftir að Epstein var handtekinn á ný árið 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×