Viðskipti innlent

Óskar eftir starfslokum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Óskar Hauksson verður forstjóra innan handar á meðan leitað er að eftirmanni.
Óskar Hauksson verður forstjóra innan handar á meðan leitað er að eftirmanni. Síminn

Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans, hefur ákveðið að láta af störfum hjá félaginu. Óskar hefur starfað hjá Símanum frá árinu 2005, en sem fjármálastjóri frá 2011. Hann mun láta af störfum þann 1. október næstkomandi og verður forstjóra innan handar þar til ráðið hefur verið í starfið.

Þetta kemur fram í tilkynningu Símans til Kauphallar.

„Fjármál Símans hafa verið í traustum höndum Óskars í rúmlega fjórtán ár. Eins og fjárfestar þekkja hefur sá tími einkennst af stöðugleika, ábyrgð og vel ígrunduðum ákvörðunum í rekstrinum. Ég vil þakka Óskari fyrir sitt framlag til félagsins og frábært samstarf síðustu misseri. Það verður missir af honum hjá Símanum, en við óskum honum öll góðs gengis í næstu verkefnum,“ segir María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans.

Óskar segir hafa verið sanna ánægju að starfa hjá Símanum í gegnum mikla umbreytingartíma undanfarin ár.

„Ég er stoltur af þeim árangri sem við höfum náð og hlakka til að fylgjast með áframhaldandi sókn félagsins. Eðli málsins samkvæmt stendur margt upp úr, en yfirburða samstarfsfólk ber þar hæst. Ég er þeim öllum þakklátur fyrir frábært samstarf og veit að Síminn er í góðum höndum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×