Innlent

„Ég held að það sé sterk friðar­von núna“

Lovísa Arnardóttir skrifar
Erlingur Erlingsson er vongóður um að leiðtogar geti komist að samkomulagi sem geti leitt til varanlegs friðar. 
Erlingur Erlingsson er vongóður um að leiðtogar geti komist að samkomulagi sem geti leitt til varanlegs friðar. 

Erlingur Erlingsson hernaðarsagnfræðingur segir Ísraela og Hamas-liða í dauðafæri á að ná samkomulagi um varanlegan frið á Gasa og í Palestínu. Stóra prófið sé fundur ríkisstjórnar Ísraels í dag þar sem þarf að samþykkja samkomulagið. Eftir það taki við lausn gísla, brottlutningur Ísraelshers frá Gasa og flutningur hjálpargagna inn á svæðið. 

Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur tilkynnt að Ísralar og leiðtogar Hamas hafi komist að samkomulagi um að koma á friði á Gasaströndinni. Öllum gíslum í haldi Hamas verði sleppt innan skamms og Ísraelar fjarlægi hermenn sína í þessum fyrsta fasa samkomulagsins. Fjölmiðlar ytra segja að til standi að skrifa undir samkomulagið í dag og að lifandi gíslum Hamas verði sleppt á laugardaginn eða á sunnudaginn.

Erlingur Erlingsson hernaðarsagnfræðingur segist vongóður um að það gangi að ná samkomulagi um frið á Gasa en segir nokkuð mikið þurfa til að það bæði gangi upp og að það nái að halda.

„Við kannski byrjum á því að komast í gegnum þennan ríkisstjórnarfund í Ísrael í dag þar sem á að samþykkja vopnahlé, fangaskipti og brottflutning herafla og síðan bara skref fyrir skref í rétta átt,“ segir Erlingur sem var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun. 

Erlingur segir afvopnun Hamas ekki hluta af þessu fyrsta skrefi en að það sem hafi komið fram í máli samningamanna í Egyptalandi og Hamas-liða sjálfra sé að þeir séu til í að afvopnast að hluta og það sé ólíklegt að þeir skrifi undir eigin endalok.

Erlingur segir það mikilvægan þátt í fyrsta skrefi samninganna að hjálpargögn fái að streyma inn á Gasasvæðið en flutningur þeirra var stöðvaður samhliða vopnahléi í mars. Hungursneyð ríkir á svæðinu og hefur gert í marga mánuði. Sérfræðingar á vegum Sameinuðu þjóðanna hafa jafnframt gefið út að aðgerðir Ísraelshers á Gasa uppfylli fjögur af fimm skilyrðum þjóðarmorða.

Donald Trump hefur verið nokkuð bjartsýnn í viðtölum og í tilkynningu á sínum eigin samfélagsmiðli um að samkomulagið muni halda. Erlingur segir ástæðu til að tala með þeim hætti og segir í raun eðlilegt að tala ekki niður þá möguleika sem eru fyrir hendi.

Erlingur segir stóra prófið framundan ríkisstjórnarfundinn í dag en það sé klárt mál að aðilar beggja megin, bæði Hamas og aðrar vígasveitir í Palestínu og einhver hluti í Ísrael, vilji áframhaldandi átök. Erlingur telur þó báða aðila aðframkomna um að leita þess að ná einhverri niðurstöðu með hernaðarlegum hætti.

„Ég held að það sé sterk friðarvon núna.“

Stórt tækifæri sem verði að grípa

Erlingur segir að í breskum fjölmiðlum sé fjallað um þetta sem tækifæri, bæði Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, og Antonio Guterrez, dsdfsd Sameinuðu þjóðanna, hafi lýst þessu þannig.

„Þó að það hafi verið vopnahlé áður þá er núna einhvers konar braut vörðuð í áttina að varanlegum friði og það þarf að leggja allt í sölurnar til að ná því.“

Erlingur segir leiðtogana þannig í góðu færi núna á að ná því markmiði en viðurkennir að á sama tíma séu erfið viðfangsefni eftir eins og stjórnarfyrirkomulag á Gasa og að alþjóðleg friðargæslulið frá Arabaríkjum fái að fara inn á svæðið, en það sé flókin útfærsla.

Hann segir ríkisstjórnarfund Ísraela stóra prófið í dag en svo eftir það, verði samkomulagið samþykkt þar, taki við brottflutningur eða flutningur Ísraelshers frá ákveðnum svæðum á Gasa, lausn gísla og flutningur hjálpargagna á svæðið.

„Það er brothættur línudans framundan sem við þurfum að fylgjast með og getur klikkað mjög auðveldlega.“


Tengdar fréttir

„Auðvitað er ég hrædd um hana“

„Auðvitað er mér ekki rótt. Auðvitað er ég hrædd um hana. En ég veit að hún stendur sig vel og ég er stolt af því sem hún hefur gert,“ segir Sólveig Hauksdóttir, móðir Margrétar Kristínar Blöndal, eða Möggu Stínu, sem hefur verið handtekin og flutt til Ísrael.

Tak­mörk á því hversu langt Ís­raelar geti farið til að verja hafn­bann

Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild háskólans á Bifröst og sérfræðingur í hafrétti, segir ákvæði hafréttar og laga um vopnuð átök takast á í umræðu og skilgreiningu á handtöku Margrétar Kristínar Blöndal tónlistarkonu og annarra aðgerðasinna í nótt. Erfitt sé að fullyrða um lögmæti aðgerða Ísraela þegar allar staðreyndir liggi ekki fyrir. Erlendur sérfræðingur á sviði hafréttar fullyrti  í sumar að handtaka aðgerðasinna á bátnum Madleen hafi verið ólögmæt.

Magga Stína handtekin í nótt af Ísraelsher

Ísraelski herinn handtók alla meðlimi bátsins Conscience um klukkan 04:30 að staðartíma í nótt. Margrét Kristín Blöndal tónlistarkona, Magga Stína, var ein þeirra sem var um borð. Utanríkisráðuneyti Ísraels segir alla farþega skipanna við góða heilsu, að þau verði flutt til hafnar í Ísrael og vísað úr landi fljótlega. Utanríkisráðuneytið fylgist með málinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×