Erlent

Trump birti gervigreindarmyndband: Með krúnu á höfði að henda hægðum á mót­mælendur

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Donald Trump birti þetta myndband á sínum eigin samfélagsmiðli.
Donald Trump birti þetta myndband á sínum eigin samfélagsmiðli. Truth Social

Í kjölfar gríðarstórra mótmæla í Bandaríkjunum birti Bandaríkjaforseti gervigreindarmyndband þar sem hann sést með kórónu á höfði að fljúga herþotu sem skýtur hægðum á mótmælendur. Ekki er um fyrsta gervigreindarmyndband af þessu tagi sem forsetinn birtir.

No Kings mótmælin fóru fram í Bandaríkjunum og víða um heim í gær. Fólksfjöldinn mótmælti stjórnarháttum Donalds Trump Bandaríkjaforseta en nafnið var valið til að minna forsetann á að enginn konungur er við völd þar í landi.

Skipuleggjendur sögðu tæpar sjö milljónir söfnuðust saman og héldu yfir 2700 viðburði út um öll Bandaríkin. Það eru tveimur milljónir fleiri heldur en komu saman í fyrri No Kings mótmælunum í sumar samkvæmt NBC. Fulltrúar Demókrata létu sjá sig á mótmælunum og héldu til dæmis öldungardeildarþingmennirnir Bearnie Sanders og Elizabeth Warren ræður.

Áður en mótmælin fóru fram sagði Trump upprunalega í viðtali að hann væri enginn konungur. Sömu sögu var ekki að segja í kjölfar mótmælanna þegar hann tók til við að birta fjöldan allann af færslum á samfélagsmiðlinum sínum Truth Social um kvöldið. Hann endurbirti tvö myndbönd sem búin voru til af gervigreind þar sem hann skartaði kórónu á höfði sínu.

Í öðru myndbandinu sást forsetinn setjast um borð í herþotu sem á stóð Trump konungur og fljúga henni með kórónu á höfðinu. Forsetinn varpaði síðan hægðum úr herþotunni á hóp mótmælenda. Sjón er í sögu ríkari.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Trump deilir gervigreindarmyndskeiðum. Eitt af þekktari dæmunum er þegar hann birti myndband af Gasa þar sem mátti sjá risastórt gulllíkneski af honum sjálfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×