Sport

Skíra greinar Ís­lands­mótsins í CrossFit í höfuðið á ís­lenskum íþróttakonum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mari Järsk og Eygló Fanndal Sturludóttur eru öflugar íþróttakonur sem fá nú grein á Íslandsmótinu nefnda eftir sér.
Mari Järsk og Eygló Fanndal Sturludóttur eru öflugar íþróttakonur sem fá nú grein á Íslandsmótinu nefnda eftir sér. @eyglo_fanndal, @mari_jaersk

Íslandsmót fullorðinna í CrossFit fer fram í næstu viku og það er athyglisvert þema í nafnagjöf á keppnisgreinum mótsins í ár.

CrossFit Reykjavík hefur yfirumsjón með Íslandsmótinu sem fer fram frá 6. til 8. nóvember.

Byrjað er að tilkynna um greinar keppninnar á miðlum CrossFit Íslands og þar er augljóst þema í gangi.

Fyrsta greinin var skírð í höfuðið á ofurhlaupakonunni Mari Järsk sem er þekkt fyrir þátttöku sína í bakgarðshlaupunum en hún hefur tvívegis borið sigur úr býtum í Bakgarður 101 og einu sinni í Bakgarðskeppninni í Heiðmörk.

Í þessari fyrstu grein skiptast keppendur á að hlaupa og róa. Fyrst eru hlaupnir þrír kílómetrar á hlaupabretti, svo taka við tveir kílómetrar í róðararvélinni og svo að lokum er hlaupinn einn kílómetri á hlaupabretti.

Fjórða greinin var skírð í höfuðið á lyftingakonunni Eygló Fanndal Sturludóttur en hún varð fyrst Íslendinga til þess að verða Evrópumeistari í ólympískum lyftingum á Evrópumóti í Moldóvu í apríl 2025.

Í fjórðu greininni eru fimm umferðir af 200 metra hlaupi og sex snörunum með sextíu kílóum (karlar) og fjörutíu kílóum (konur). Það verða auðvitað að vera ólympískar lyftingar í grein sem er nefnd eftir Eyglóu Fanndal.

Það verður síðan fróðlegt að sjá hvaða fleiri íþróttakonur fá grein nefnda eftir sig á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×