Viðskipti innlent

Fjölda fólks sagt upp hjá Icelandair

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair. SÝN

Flugfélagið Icelandair réðst í uppsagnir í morgun. Samkvæmt heimildum fréttastofu var um fjörutíu manns sagt upp störfum.

Ekki hefur náðst í upplýsingafulltrúa Icelandair vegna málsins. Samkvæmt lögum er um hópuppsögn að ræða.

Hagnaður Icelandair eftir skatta á þriðja ársfjórðungi nam sjö milljörðum króna, samanborið við 8,5 milljarða hagnað á sama tímabili í fyrra. Félagið áætlar að afkoma fyrir vaxtagreiðslur og skatta árið 2025 verði neikvæð um 1,2 til 2,4 milljarða króna. Félagið hafði þegar birt afkomuviðvörun þar sem kom fram að kostnaður á fjórðungnum hefði verið meiri en búist var við.

Flugfélagið Play, helsti samkeppnisaðili Icelandair, varð gjaldþrota í september. 

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í tilkynningu til Kauphallar á dögunum að eftir átta ár í ósjálfbærum rekstri væri áhersla Icelandair skýr. Að snúa rekstri félagsins við ekki síðar en á árinu 2026.

„Í því skyni höfum við aðlagað flugframboð okkar fyrir árið 2026 að aðstæðum, munum fækka flugvélum í farþegaleiðakerfinu um tvær og höfum ákveðið að hætta rekstri Boeing 767 breiðþotna í lok 2026. Í lok þriðja ársfjórðungs höfðum við ráðist í umbótaverkefni sem við gerum ráð fyrir að muni skila yfir 100 milljónum dala á ársgrundvelli þegar þau verða komin að fullu til framkvæmda. Við munum ekki láta staðar numið þar.“

Þá sagði hann frekari hagræðingaraðgerðir væru í kortunum. Tveimur vikum síðar hefur verið gripið til uppsagna.

„Við erum nú að hefja mikilvægar kjaraviðræður við flugstéttirnar sem munu hafa áhrif á framtíð Icelandair. Lykilþáttur í því að félagið komist í arðbæran rekstur og geti vaxið og dafnað til framtíðar er að nýir kjarasamningar muni stuðla að samkeppnishæfni félagsins í krefjandi rekstrarumhverfi, styðja við fjárfestingar í nýjum flota og á sama tíma tryggja áfram spennandi störf og eftirsótt vinnuumhverfi.“

Fréttin er í vinnslu.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×