Viðskipti innlent

Gætu flýtt fyrir með því að gera við biluðu spennana

Kjartan Kjartansson skrifar
Norðurál rekur álverið á Grundartanga.
Norðurál rekur álverið á Grundartanga. Vísir/vilhelm

Fulltrúar Norðuráls skoða nú möguleikann á því að gera við spenna sem biluðu í síðasta mánuði og nota þá tímabundið þar til nýir fást. Áætlað er að biðin eftir nýjum spennum gæti tekið allt að ár.

Bilunin sem varð í tveimur spennum í álverinu á Grundartanga í október stöðvaði framleiðslu í annarri af tveimur kerlínum þess. Afköst álversins eru því aðeins þriðjungur af því sem hún var fyrir bilunina.

Samkvæmt nýjustu áætlunum er gert ráð fyrir að framleiðsla í kerlínunni geti hafist eftir ellefu til tólf mánuði á meðan beðið er eftir því að nýir spennar séu framleiddir, fluttir til landsins og settir upp.

Unnið er að því að reyna að stytta þessa bið eins og mögulegt er, að því er segir í tilkynningu frá Norðuráli í dag. Á meðal þess sem sé skoðað sé bráðabirgðaviðgerð á biluðu spennunum.

„Þessi nálgun er til skoðunar í samstarfi við hönnuð og framleiðanda búnaðarins og gæti, ef vel tekst til, flýtt um um nokkra mánuði að full framleiðsla hefjist á ný,“ segir í tilkynningu frá Sólveigu Kr. Bergmann, framkvæmdastjóra samskipta og samfélagsmála hjá Norðuráli.

Hún segir jafnframt að bilunin hafi komið verulega á óvart í ljósi þess að báðir spennarnir hafi verið vel innan þess endingartíma sem vænta mætti af þeim. Norðurál vinni með hönnuðum og framleiðendum þeirra að greina orsakir bilunarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×