Erlent

Að minnsta kosti 44 látnir og 280 saknað

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Erfitt hefur reynst að komast á efri hæðir bygginganna til að athuga með íbúa sem kunna að vera fastir þar.
Erfitt hefur reynst að komast á efri hæðir bygginganna til að athuga með íbúa sem kunna að vera fastir þar. AP/Chan Long Hei

Slökkvistarfi er að mestu lokið í Wang Fuk íbúðaturnunum í Hong Kong, eftir gríðarlegan eldsvoða sem braust út í gær. Fjörtíu og fjórir eru látnir og 45 alvarlega slasaðir. Um 280 er enn saknað.

Wang Fuk turnarnir eru átta talsins, 32 hæðir hver og telja samtals um 2.000 íbúðir. Búið er að flytja um 900 íbúa í neyðarskýli en 26 björgunarteymi eru á vettvangi. Leit er hafin á neðstu hæðum bygginganna en erfitt hefur reynst að koma ofar vegna reyks og hita.

Dýraverndunarsamtök í borginni eru einnig á vettvangi og freista þess að bjarga gæludýrum íbúa.

Þrír hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins en talið er að eldurinn hafi náð að breiðast út á milli turnanna vegna bambus virkis og nets sem búið var að koma upp í tengslum við endurbætur. Þá hefur verið greint frá því að eldfimt frauð hafi verið notað við uppsetningu glugga.

Hinir handteknu eru sagðir tengjast ónefndu byggingafyrirtæki.

Fjöldi kínverskra stórfyrirtækja hefur heitið milljónum dala til stuðnings íbúum.

Íbúar fara í gegnum fatnað sem safnast hefur þeim til stuðnings og leita að einhverju nýtilegu.AP/Chan Long Hei



Fleiri fréttir

Sjá meira


×