Skoðun

Eru grænu skattarnir ekki í besta falli gráir?

Benedikt S. Benediktsson, Heiðrún Lind Marteinsdóttir og Jóhannes Þór Skúlason skrifa

Allir greiða skatta enda eru þeir nauðsynlegir í rekstri samfélaga og allir finna fyrir tekjuskatti og útsvari um hver mánaðamót. Óbeina skatta greiðir fólk nánast á hverjum degi því þeim er komið fyrir í verði vara og þjónustu, bæði innanlands og í útflutningi.

Leitin að góðu sköttunum – hinir grænu

Fyrir nokkrum áratugum fékk sú kenning brautargengi að til væru „góðir“ skattar með göfugt markmið. Með tíð og tíma varð sú niðurstaða ofan á að nota ætti skattkerfið til að draga úr hegðun sem hefði neikvæð áhrif á samfélagið. Grunnhugmynd „grænu“ skattanna er hin sama og skatta á áfengi, kaffi og súkkulaði, að stýra hegðun neytenda. Veldu rafbíl, ekki dísilbíl, hjólaðu eða taktu strætó. Við sjáum að grænu skattarnir hafa áhrif; rafbílar, hleðslustöðvar og rafmagnshjól eru til marks um það.

Hið græna reyndist grátt

Það er augljóst að ekki er hægt að flytja vörur til og frá Íslandi með lestum í stað flutningabíla eða flugvéla. Það sama á við um fólk á faraldsfæti; til og frá Íslandi þarf því að notast við flugvélar eða skip. Aðrir kostir eru ekki í boði.

Ísland er þátttakandi í viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir (ETS). Það þýðir að við undirgöngumst sömu skilyrði og önnur lönd í Evrópu þegar kemur að aðgerðum til að draga úr losun á kolefni, meðal annars í flugi og skipaflutningum. Allt í nafni loftslagsins. Á Íslandi er einnig kolefnisgjald lagt á jarðefnaeldsneyti, eins og dísil, bensín og gasolíu. Kolefnisgjaldið var fyrst lagt á fyrir 15 árum og hefur síðan þá tæplega nífaldast.

Hugum fyrst að ETS-kerfinu, hinu evrópska. Því var komið á til þess að beina fólki og fyrirtækjum í átt að umhverfisvænni kostum. Kerfið átti meðal annars að hvetja fyrirtæki til þess að flytja vörur á milli landa með umhverfisvænni hætti. Í þessum efnum er eyja, langt norður í Atlantshafi, augljóslega ekki í sömu færum og lönd Evrópu. Ekki eingöngu vegna þess að vöruflutningar til og frá byggjast á siglingum og flugi, heldur bætist við að raforkukerfi landsins er ekki tengt neinu öðru. Í þessu tilliti er Ísland sannarlega eyland. Leggja ber sérstaka áherslu á að hryggjarstykkið í efnahagslegri hagsæld byggist á útflutningsgreinum, einkum ferðaþjónustu, iðnaði og sjávarútvegi. Að sjálfsögðu eru svo allar erlendar vörur sem hér eru seldar fluttar til landsins með flugi eða sjóleiðina. Hjá hinum græna skatti verður því ekki komist, þótt fyrirtæki vildu glöð skipta yfir í umhverfisvænni orkugjafa. Og það hefur skaðleg áhrif. Forstjóri Eimskips gat þess við kynningu á afkomu á þriðja ársfjórðungi að gjöld vegna kolefnisskatta hefðu verið hækkuð um 197% frá byrjun árs 2023. Forstjóri Icelandair sagði nýverið að verið væri að skattleggja fyrirtækið „upp í rjáfur“. Kolefnisgjöld á fiskveiðar hafa einnig margfaldast á undanförnum árum.

Litblinda

Allt ber hér að sama brunni. Skattar eru hækkaðir í nafni loftslagsins en í raun koma þeir í veg fyrir raunverulegan árangur við að draga úr losun. Það er hafið yfir vafa að það þarf að draga úr losun og nota aðra og raunhæfa orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis. En miðað við stöðu mála í dag verða stór skip í úthafssiglingum knúin jarðefnaeldsneyti að mestu leyti. Það á einnig við um stærri veiðiskip. Sama staða er uppi í flugi. Þessi farartæki eru algerlega háð jarðefnaeldsneyti og geta ekki farið í orkuskipti strax. Grænu skattarnir hjálpa umhverfinu lítið þegar staðgönguvara er ekki raunhæfur valkostur og orka og innviðir ekki til staðar. Því eru þeir ekkert annað en hrein og klár skattheimta sem siglir undir fölsku flaggi. Niðurstaðan verður því hin sígilda, röskun, minni hagkvæmni og það dregur úr velferð.

Er þá ekkert hægt að gera?

Þrátt fyrir að ekki sé hægt að taka skrefið til fulls í orkuskiptum í skipum og flugi er hægt að endurnýja tækjakost, skipta út eldri skipum og flugvélum fyrir nýrri. Það er auðsóttur ávinningur. Til dæmis má gera ráð fyrir 20%-35% orkusparnaði þegar gömlu fiskiskipi er skipt út fyrir nýtt. Þróunin í sparneytnari flugvélum er einnig hröð. Á síðustu árum hefur Icelandair til dæmis fjárfest gríðarlega í nýjum vélakosti og þannig náð að lækka kolefnisspor sitt verulega. Nú orðið er hægt að kaupa stóra flutningabíla sem ganga fyrir rafmagni og drægni þeirra er alltaf að aukast. Þeir eru enn afar dýrir og ekki er fyrirséð hvort unnt verði að stinga þeim í samband hvenær sem þörf er á.

Þessar fjárfestingar eru dýrar og aukin skattheimta dregur úr getu og líkum á því að fyrirtæki nái að endurnýja tækjakost. Þá er hætt við því að hinir grænu skattar séu í besta falli gráir.

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF




Skoðun

Skoðun

Ekki líta undan

Reyn Alpha Magnúsdóttir,Bjarndís Helga Tómasdóttir skrifar

Sjá meira


×