Innlent

Hættir sem rit­stjóri Kastljóss

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Baldvin hefur starfað sem ritstjóri Kastljóss frá 2021.
Baldvin hefur starfað sem ritstjóri Kastljóss frá 2021. Vísir/Anton Brink

Baldvin Þór Bergsson hefur sagt upp störfum sem ritstjóri Kastljóss og hyggst einbeita sér að störfum sínum sem varafréttastjóri og ritstjóri fréttatengdra þátta hjá Ríkisútvarpinu. 

Hann staðfestir þetta í samtali við fréttastofu en um þrjár vikur eru síðan honum brá síðast fyrir í Kastljósinu. 

„Ég ætla að láta þetta duga í bili, vera bara í einni og hálfri vinnu en ekki tveimur og hálfri. Það er nú ekki meira drama en það,“ segir Baldvin og hlær.

Baldvin hóf störf sem ritstjóri Kastljóss í lok árs 2021 en fyrir það starfaði hann sem dagskrárstjóri Rásar 2. 

Þóra kveður Þetta helst

Hann segir ekki liggja fyrir hver kemur til með að taka við keflinu.

„Svo er ég áfram ritstjóri fréttatengdra þátta þannig að við ætlum að halda áfram að efla samstarf milli þessara þátta sem við erum með í útvarpi og sjónvarpi.“

Þessu tengt staðfestir Baldvin að Þóra Tómasdóttir hafi sagt skilið við þættina Þetta helst á Rás 1, sem heyrir undir fréttatengda þætti. Hún sé komin í annars konar verkefni, þó enn á Rás 1.

„Hún hefur verið að gera stærri seríur, þannig að hún getur fókusað meira á svoleiðis þar,“ segir Baldvin.

Ingvar Þór Björnsson, sem sá áður um Morgunútvarpið á Rás 2, hefur nú lagt Inga Frey Vilhjálmssyni lið í Þetta helst. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×