Innlent

Setja sjálf upp um­ferðar­ljós og gagn­rýna ráða­leysi borgarinnar

Lovísa Arnardóttir skrifar
Elías gagnrýnir harðlega ráðaleysi borgarinnar. Foreldrar hafa undanfarnar vikur sjálf séð um gangbrautarvörslu.
Elías gagnrýnir harðlega ráðaleysi borgarinnar. Foreldrar hafa undanfarnar vikur sjálf séð um gangbrautarvörslu. Aðsend og Vísir/Vilhelm

Íbúar í Laugardal í Reykjavík stefna á að setja upp umferðarljós við gatnamót Kirkjuteigs og Reykjavegar þar sem keyrt hefur verið á þrjú börn í haust. Fyrst eitt barn á hjóli í september og svo tvö börn, annað á hjóli, í október. Laugarnesskóli er rétt fyrir ofan gatnamótin og börnin labba þarna yfir götuna til að komast í til dæmis skólasund og tómstundir eða á leið sinni heim. 

Elías Blöndal Guðjónsson, íbúi, ræddi ástandið á gatnamótunum í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hann segist hafa verið í sambandi við Reykjavíkurborg frá upphafi árs 2023 um umferðaröryggi við Laugarnesskóla. Hann segir þessi umferðarslys hafa sett málið aftur af stað en að niðurstaðan sú að Reykjavíkurborg ætli ekki að bregðast við.

„Þá er ekkert annað í stöðunni, ef borgin ætlar ekki að tryggja öryggi barnanna okkar í hverfinu, þá verðum við að gera það sjálf.“

Elías segir það kröfu íbúa að borgin endurhanni gatnamótin. Börnin þurfi að fara yfir tvær götur í stað einnar, það sé léleg lýsing og svo hafi umferð aukist verulega síðustu ár, samhliða fjölgun íbúa á Kirkjusandi.

„Okkar krafa var í raun og veru bara að borgin myndi bæta umferðaröryggi. Það er ekkert endilega sjálfgefið að það sé með umferðarljósum,“ segir hann en að það sé það sem íbúar hafi ákveðið að gera.

Táknræn aðgerð

Elías segir að það verði áhugavert að sjá hversu fljótir starfsmenn borgarinnar verði að bregðast við þegar ljósin verða komin upp.

„Ef þeir koma og taka niður ljósin, þá verður svo bara að vera. Þetta er táknræn aðgerð. Til þess að sýna fram á hvað það er auðvelt að bæta umferðaröryggi barna í hverfinu.“

Hann segir ótrúlegustu afsökun borgarinnar fjárskort og það hafi því verið ótrúlegt að sjá svo fréttir um að það væri til skoðunar að gera nýja lunda- og selalaug í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Elías segir ekki liggja fyrir hversu mikið kostar að setja upp ljósin en það muni kosta nokkur hundruð þúsunda. Hann segir það því fyrirslátt og andvaraleysi hjá borginni að vísa til fjárskorts.

„Þetta sýnir okkur að fólkið sem þarna stýrir er ekki í tengslum við sama veruleika og við hérna í Laugardalnum og íbúarnir í Reykjavík almennt,“ segir hann og á við stjórnmálamennina sem ráða í hvað fjármagnið fer.

„Það eru þeir sem stýra því að fjármunirnir eigi að fara í að búa til nýja laug fyrir seli og lunda í Húsdýragarðinum, en ekki í að bæta umferðaröryggi,“ segir hann og að starfsmenn eigi ekki annarra kosta völ en að fylgja þessum fyrirmælum.

Honum segist hafa blöskrað ráðaleysi borgarinnar í þessu máli í kjölfar slysanna. 

Dræm viðbrögð borgar

Elías segir leiðinlegt að standa í þessu.

„Mér líður frekar illa með þetta allt saman og mér finnst dapurlegt að foreldrar þori ekki að senda börnin sín gangandi í skólann vegna þess að borgin bregst ekki við. Ég átti nú kannski allt eins von á því að einhver myndi hafa samband frá borginni við mig. Eftir öll þessi samskipti sem að ég hef verið í. Ég hef verið í mjög miklum bréfaskriftum við borgina í tvö ár og því miður fengið bara mjög dræm viðbrögð,“ segir hann og að hann hefði alltaf haldið að borgarstjórinn myndi hreinlega bara mæta sjálfur þegar það er búið að aka á þrjú börn á sömu gatnamótunum.

Gatnamótin sem um ræðir. Vísir/Vilhelm

„Fólk er ekki að biðja um Selalaug og það er ekki að biðja um nýtt bókasafn í Grófarhúsinu eða nýtt Ljósmyndasafn. Það er einfaldlega bara að biðja um það að grunninnviðir borgarinnar séu í lagi. Það er kannski lýsandi fyrir ástandið er að það er nú ekki langt síðan að borgarfulltrúar þurftu að flytja sérstaka tillögu í borgarráði eða borgarstjórn um að, um að það vanti perur í ljósastaura. Það virðist vera sá veruleiki í borginni að, að það vanti perur í ljósastaura svo mánuðum skipti og ekkert gerist. En á sama tíma virðist vera, virðast vera til peningar fyrir ýmsum gæluverkefnum,“ segir hann og að þetta fari afar illa ofan í hann.


Tengdar fréttir

Fengu nóg og tóku málin í sínar eigin hendur

Foreldrar í Laugarnesskóla hafa tekið umferðaröryggismál í eigin hendur og mannað gæslu við gangbraut á Reykjavegi þar sem í tvígang hefur verið ekið á börn á leið frá skóla síðasta mánuðinn. Foreldri við skólann segir þær úrbætur sem hafa verið gerðar ekki nógu góðar.

Borgin hafi gert úr­bætur en sólin sé aðal­vanda­málið

Deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg segir gatnamót við Laugarnesskóla standast ítrustu hönnunarviðmið með tilliti til umferðaröryggis en í gær var ekið á barn í annað sinn á skömmum tíma á gatnamótum Kirkjuteigs og Reyjavegar. Hann segir ýmsar úrbætur hafa verið framkvæmdar á síðustu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×