Erlent

Þingið í­trekar stuðning Banda­ríkjanna við Evrópu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mike Johnson, forseti fulltrúadeildarinnar, sagði frumvarpinu ætlað að efla varnir Bandaríkjanna og stuðning við bandamenn.
Mike Johnson, forseti fulltrúadeildarinnar, sagði frumvarpinu ætlað að efla varnir Bandaríkjanna og stuðning við bandamenn. Getty/Bill Clark

Fulltrúadeild bandaríska þingsins hefur samþykkt 900 milljarða dala varnarmálafrumvarp, sem virðist vera nokkuð á skjön við nýútgefna stefnu Bandaríkjanna í þjóðaröryggismálum.

Frumvarpið kveður meðal annars á um að herafli Bandaríkjanna í Evrópu fari aldrei niður fyrir 76.000 menn í meira en 45 daga og bannar flutning hergagna frá álfunni, nema í samráði við bandamenn.

Þá heimilar frumvarpið einnig fjárframlög til handa Úkraínu að upphæð 400 milljónir dala á ári næstu tvö árin og fjallar um aukið samráð um varnir Eystrasaltsríkjanna.

Þessi ákvæði þykja, eins og fyrr segir, nokkuð á skjön við þjóðaröryggisstefnu Donald Trump Bandaríkjaforseta og yfirlýsingar hans varðandi Evrópu, sem þykja til marks um lítilsvirðingu og jafnvel fyrirlitningu stjórnarinnar vestanhafs í garð álfunnar.

Frumvarpið naut stuðnings þingmanna bæði Repúblikanaflokksins og Demókrataflokksins og var samþykkt með 312 atkvæðum gegn 112. Það fer nú til öldungadeildarinnar, þar sem það verður líklega samþykkt.

Hvíta húsið hefur lagt blessun sína yfir frumvarpið og verður undirritað af forsetanum þegar að því kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×