Viðskipti innlent

Gréta María um starfs­lokin: „Ég geng stolt frá borði“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Gréta María Grétarsdóttir hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Prís og segir óráðið hvað tekur við næst.
Gréta María Grétarsdóttir hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Prís og segir óráðið hvað tekur við næst. Vísir/Vilhelm

Gréta María Grétarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Prís, segir óráðið hvað tekur við hjá henni næst en óvænt starfslok hennar hjá fyrirtækinu vöktu athygli í gær. Hún sé nú komin í kærkomið jólafrí en kveðst ganga stolt frá borði og er þakklát fyrir sinn tíma hjá Prís.

Vísir greindi frá starfslokum Grétu í gær en hún hefur verið framkvæmdastjóri lágvöruverslunarinnar síðan hún opnaði dyr sínar í ágúst í fyrra en var þar á undan forstjóri Heimkaupa. Gréta mætti síðan í Bítið í Bylgjunni í morgun til að ræða fréttir vikunnar þar sem hún var spurð út í starfslokin.

„Ég bara geng stolt frá borði, þetta er búið að vera afskaplega skemmtilegur tími og ekki sjálfgefið að koma inn á markað og ná að vera ódýrust í þennan tíma. Og ég er afskaplega ánægð með Prís teymið sem er búið að taka þátt í að byggja þetta upp og núna kemur bara einhver annar og tekur við og ég fæ kærkomið jólafrí,“ sagði Gréta María.

Þá var hún spurð hvort hún vissi hvað tæki við hjá henni næst, en það sagðist hún ekki vita að svo stöddu.

„Ekki neitt, ég bara byrja á því alla veganna að taka jólafrí,“ svaraði Gréta. „Og bara njóta jólanna. Maður sér þegar maður er að fara yfir fréttir vikunnar að það er svo mikið að gerast í desember þannig ég fékk bara svolítinn tíma til að æfa mig í að róa hugann,“ bætti Gréta við, létt í bragði. Þótt hún hafi látið af störfum komi ekki annað til greina en að afgreiða jólainnkaupin í Prís.

Þáttarstjórnendur og Stefán Einar Stefánsson fjölmiðlamaður, sem einnig var mættur til að ræða fréttir vikunnar, sögðust myndu sakna Grétu úr Prís og hún hafi þar unnið gott starf sem hafi hrist upp í markaði lágvöruverslunar á Íslandi. „Ég segi bara takk fyrir það og maður trúir því að hlutir gerist af ástæðu. Ég trúi því að það bíði mín eitthvað gott á árinu 2026,“ sagði Gréta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×