Lífið

Isiah Whitlock Jr. látinn

Eiður Þór Árnason skrifar
Isiah Whitlock Jr. í júní 2022 við frumsýningu Lightyear úr smiðju Disney og Pixar í El Capitan Theatre í Los Angeles.
Isiah Whitlock Jr. í júní 2022 við frumsýningu Lightyear úr smiðju Disney og Pixar í El Capitan Theatre í Los Angeles. EPA/Nina Prommer

Bandaríski leikarinn Isiah Whitlock Jr. er látinn, 71 árs að aldri. Hann var þekktur fyrir eftirminnileg hlutverk í sjónvarpsþáttum á borð við The Wire, Veep og Your Honor, sem og fyrir leik sinn í fjölda kvikmynda með Spike Lee.

Brian Liebman umboðsmaður Whitlock segir í samtali við Deadline að hann hafi kvatt með friðsælum hætti í gær eftir stutta baráttu við veikindi. Hann lést í New York-borg.

Whitlock fæddist í borginni South Bend í Indiana-ríki árið 1954 og hóf leiklistarferil sinn þegar hann gekk til liðs við American Conservatory Theatre-leikhúsið í San Francisco að loknu háskólanámi.

Vakti hann fyrst landsathygli árið 1987 fyrir gestahlutverk sitt í sjónvarpsþáttunum Cagney & Lacey á CBS, að sögn Deadline. Síðustu 35 ár hefur Whitlock birst reglulega í ýmsu sjónvarpsefni og leikið fjölda gestahlutverka, þar á meðal í Law & Order-seríunum.

Vakti athygli í The Wire

Whitlock er líklega þekktastur fyrir að leika spillta öldungadeildarþingmanninn R. Clayton Davis í vinsælu sjónvarpsþáttunum The Wire sem framleiddir voru fyrir HBO. Hann lék einnig George Maddox varnarmálaráðherra í pólitísku gamanþáttunum Veep á HBO og var fastagestur í lögfræðispennuþættinum Your Honor þar sem hann lék stjórnmálamann með tengsl við skipulagða glæpastarfsemi.

Síðasta sjónvarpshlutverk Whitlocks var í morðgátuþáttaröðinni The Residence á Netflix sem frumsýnd var í mars. Þar brá hann sér í líki lögreglustjóra og lék á móti Uzo Aduba.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.