Erlent

Mikil spenna í Minneapolis eftir bana­skot ICE-liða

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Minneapolis í gærkvöldi.
Frá Minneapolis í gærkvöldi. AP/Bruce Kluckhohn

Kristi Noem, heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, segir ekki koma til greina að útsendarar hennar fari frá Minneapolis, eftir að starfsmaður Innflytjenda- og tollaeftirlits Bandaríkjanna (ICE) skaut 37 ára gamla konu til bana í gær.

Heimavarnaráðuneytið hefur sent rúmlega tvö þúsund útsendara ýmissa stofnana til Minneapolis og segir Noem að þeir muni ekki fara þaðan, þó ráðamenn í borginni og ríkinu Minnesota hafi kallað eftir því.

Mikil spenna ríkir í borginni og er veru útsendara ráðuneytisins þar mótmælt. Héraðsmiðillinn Minnesota Star Tribune segir skólum hafa verið lokað í borginni og að til standi að mótmæla í allan dag.

Upptöku frá einum mótmælum í Minneapolis fyrr í dag má sjá í spilaranum hér að neðan.

Konan sem skotin var til bana í gær hét Renee Nicole Macklin Good og var 37 ára gömul. Hún var skotin í höfuðið þegar útsendir ICE hleypti af þremur skotum inn í bíl hennar.

Sjá einnig: Fulltrúi ICE skaut konu til bana í Minneapolis

Skömmu eftir að hún var skotin til bana steig Noem fyrir framan myndavélar og sakaði Good um hryðjuverkastarfsemi og sagði að hún hefði ætlað að bana útsendurum ICE. Donald Trump, forseti, tók undir það á samfélagsmiðlum og sagði að sá sem skaut Good hafi verið heppinn að lifa atvikið af.

Fjölmargir aðrir embættismenn og Trump-liðar hafa slegið á svipaða strengi en fátt bendir til þess að þeir hafi rétt fyrir sér. Sambærileg ummæli hafa verið látin falla í öðrum sambærilegum atvikum þar sem útsendarar ICE hafa skotið fólk.

Virtist taka Good upp áður en hann skaut hana

Maðurinn sem skaut Good til bana hafði gengið hring í kringum bíl hennar með símann á lofti og virtist hann vera að taka upp myndband.

Þegar annar útsendari ICE reyndi að opna hurðina á bíl Good reyndi hún að komast undan og maðurinn sem hafði staðið fyrir framan bílinn tók upp skammbyssu og reyndi að koma sér undan, á sama tíma og hann skaut einu skoti inn um framrúðu bílsins og tveimur inn um gluggann bílstjóramegin á bílnum.

Hvernig Good beygði bílnum þegar hún reyndi að keyra af stað bendir ekki til þess að hún hafi ætlað sér að keyra yfir manninn.

Hægt er að færa rök fyrir því að fyrsta skotinu hafi verið hleypt af í sjálfsvörn en það á alls ekki við um seinni skotin tvö.

Meðal þeirra sem hafa farið ítarlega yfir myndbönd af atvikinu eru blaðamenn New York Times. Sú greining bendir til þess að útsendari ICE hafi ekki orðið fyrir bílnum, eins og embættismenn og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafa haldið fram.

Sjá má greiningu NYT í spilaranum hér að neðan.

Hafa áður sagt ósatt

Í september skaut útsendari ICE konu sem var ólöglega í Bandaríkjunum til bana í Franklin Park í Illinois. Á þeim tíma héldu forsvarsmenn heimavarnaráðuneytisins því fram að konan, sem hét Silver Villegas-Gonzalez og var 38 ára gömul, hefði reynt að keyra á útsendara ráðuneytisins og að starfsmaður ICE sem skaut hana hefði dregist með bíl hennar og orðið fyrir alvarlegum meiðslum.

Eins og fram kemur í samantekt CBS News kom síðar í ljós að þegar hún reyndi að komast undan stóðu starfsmenn ICE sitthvoru megin við bíl hennar. Sá sem skaut hana reyndi að hanga á bílnum og dróst lítillega með honum.

Þegar hann stóð upp, eftir að hafa skotið konuna, sagði hann við félaga sína að hann væri í fínu lagi. Hann hefði bara dregist mjög stutt með bílnum.

Forsvarsmenn ráðuneytisins héldu því einnig fram að konan hefði verið harðsvífinn glæpamaður en rannsókn blaðamanna leiddi í ljós að hún hafði einungis fjórum sinnum verið sektuð milli 2010 og 2019. Einu sinni fyrir að keyra of hratt, einu sinni fyrir að vera með útrunnið ökuleyfi, fyrir að vera ótryggð og fyrir að vera ekki með barnastól í bíl sínum.

Keyrðu sönnunargögnum til annars ríkis

Í öðru atviki í Illinois í október skaut útsendari landamæraeftirlits Bandaríkjanna konu. Þá var því haldið fram að útsendarar heimavarnaráðuneytisins hefðu verið umkringdir með tíu bílum og að hin 31 árs gamla Marimar Martinez hafi verið vopnuð.

Einn útsendari ráðuneytisins skaut fimm skotum á bíl hennar en hún særðist ekki alvarlega og keyrði á brott.

Viku síðar voru hún og farþegi í bíl hennar ákærð fyrir að ráðast á alríkisútsendara og morðtilraun. Var því haldið fram að hún hefði keyrt á bíl mannsins sem skaut á hana í sjálfsvörn. Honum var síðan leyft að keyra bílnum sem hann var á, sem var sönnunargagn í málinu gegn henni, á brott til annars ríkis.

Hún var aldrei ákærð fyrir vopnaburð að endingu voru ákærurnar gegn henni felldar niður.

Lögmaður hennar sagði starfsmenn ráðuneytisins hafa logið um hvað gerðist þegar hún var skotin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×