Skoðun

Úr­ræða­leysi í hel­greipum – þegar kerfið bregst börnum með fjöl­þættan vanda

Þóranna Ólafsdóttir skrifar

Þegar við lesum blöðin og hlustum á fréttir þá er ljóst að kerfið er að bregðast börnum með fjölþættan vanda.

Eftir rúmlega þrjátíu ára starf innan grunnskólans, bæði sem kennari og skólastjóri, hef ég horft upp á samfélagið breytast og kröfurnar til skólanna aukast. Frá því að grunnskólinn var færður til sveitarfélaganna árið 1996 hefur hlutverk okkar orðið æ flóknara. Við erum fyrsta stigið í þjónustunni, stofnun sem lögum samkvæmt getur ekki neitað neinu barni um inngöngu vegna skólaskyldu. En á meðan skólinn stendur opinn, mæta mörg okkar veikustu barna lokuðum dyrum eða endalausum biðlistum annars staðar í kerfinu.

Hvað er fjölþættur vandi?

Hugtakið fjölþættur vandi vísar til barna sem glíma við samspil geðraskana, þroskaraskana og alvarlegs hegðunarvanda. Oft bætist vímuefnaneysla ofan á þessa erfiðleika, sem gerir málin enn þyngri í vinnslu. Þetta eru börnin sem „passa“ ekki inn í staðlaðar lausnir og þurfa stuðning frá mörgum kerfum samtímis. Samkvæmt heimildum eru þessi mál með þeim þyngstu sem barnaverndarnefndir fást við, sérstaklega þegar neysla er annars vegar.

Umboðsmaður barna hefur nýlega lýst yfir þungum áhyggjum af því neyðarástandi sem ríkir í málefnum þessa hóps. Það er hrópandi misræmi á milli þarfarinnar og þeirra úrræða sem í boði eru. Á sama tíma og áhættuhegðun og ofbeldi meðal barna eykst, hefur Barna- og fjölskyldustofa fækkað eigin meðferðarúrræðum. Í lok árs 2024 var svo komið að ekkert hefðbundið meðferðarúrræði var starfrækt fyrir drengi á Íslandi eftir lokun Stuðla og Lækjarbakka.

Þetta leiðir til þess að börn í bráðri hættu hafa jafnvel verið vistuð í fangageymslum, sem embætti umboðsmanns barna telur með öllu óviðunandi og brot á réttindum barna samkvæmt Barnasáttmálanum.

Skólinn er oft sá staður þar sem merki um vanlíðan koma fyrst fram. En skólastjórnendur og kennarar upplifa sig oft eina á báti. Ráðgjafar mæta með sjónrænt skipulag og ráð um yfirveguð samtöl – aðferðir sem starfsfólk er löngu búið að tæma í tilfellum þar sem vandi barnsins er orðinn kerfislægur. Við í skólanum eru að kalla á úrræði!

Börn sem glíma við geðvanda og fíkn mæta þeim vegg að heilbrigðiskerfið sinnir þeim ekki sem skyldi. Heimildir staðfesta að börn í vímuefnaneyslu eiga ekki sama aðgang að heilbrigðisþjónustu og önnur börn; þau eiga til dæmis oft ekki innkomu á Barnaspítala Hringsins eða geðdeildir vegna neyslu sinnar . Niðurstaðan er sú að málunum er kastað á milli kerfa þar sem enginn vill taka fulla ábyrgð.

Staða foreldra þessara barna er sár. Þeir lýsa ferlinu sem „endalausum bardaga“ fyrir þjónustu sem á að vera sjálfsögð. Margir upplifa sig sem málstjóra í kerfi sem er óstarfhæft, á meðan þeir horfa upp á börn sín sökkva dýpra í vanlíðan eða neyslu. Þegar úrræðaleysið er algjört, hafa sumir foreldrar sent börn sín í dýra og sértæka vistun erlendis þar sem innlend kerfi geta ekki mætt þörfum þeirra. Það eiga ekki allir foreldrar kost á þessu og þeir foreldrar sem gera þetta í örvæntingu safna upp skuldum. Það er óásættanlegt!

Það er varhugavert að fækka úrræðum án þess að byggja upp ný og betri í staðinn. Snemmtæk íhlutun er lykilatriði, en hún verður að vera raunveruleg og fela í sér aðgengi að sérfræðingum án langrar biðar. Við getum ekki horft upp á fleiri útskrifuð börn og foreldra sem eru reið út í kerfið sem átti að vernda þau, styðja og grípa.

Eins og fram kemur í yfirlýsingum fagfólks, þarf að koma á fót fjölbreyttum, kynjaskiptum og stigskiptum meðferðarúrræðum sem mæta börnum þar sem þau eru stödd. Við í skólunum krefjumst þess að heilbrigðis- og félagsmálakerfið axli sína ábyrgð. Ég hvet nýjan Barna- og menntamálaráðherra að kveikja þann neista og munda sleggjuna þar. Með betri líðan eykst námsárangur. Börn í vanda eiga að vera efst á forgangslistanum – alltaf.

Höfundur er skólastjóri.




Skoðun

Skoðun

Ung til at­hafna

Hildur Rós Guðbjargardóttir,Eyrún Fríða Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×