Skoðun

Vöru­væðing í­þróttanna og RIG ráð­stefnan um snemm­bundna af­reksvæðingu

Daði Rafnsson skrifar

Það er ekki ofsögum sagt að íslenskt íþróttalíf stendur á tímamótum. Sama hvort litið er til stjórnunnar, sjálfboðaliðastarfs, yngri flokka eða afreksstarfs þá eru íslensku íþróttafélögin eins og við þekkjum þau í núverandi mynd undir pressu úr mörgum áttum. Forkólfar í íþróttahreyfingunni tjá sig og birta reglulega greinar um álag og skort á fjármagni. Ýmislegt er þegar farið að breytast í því hvernig félögin eru rekin, hvernig sjálfboðaliðastarfi er háttað, hvernig við ölum upp börnin okkar í gegnum íþróttir og hvernig afreksþjálfun á sér stað. Sjálf sál og tilgangur íþróttahreyfingarinnar er jafnvel undir.

Ástæðan er markaðs-og vöruvæðing (marketization / commoditization) íþróttanna á heimsvísu sem ýtir undir að íþróttagreinar, íþróttafólk og tengdir viðburðir og upplifanir eru í síauknum mæli orðin að vörum og þjónustum sem er fyrst og fremst ætlað að skila gróða fyrir eigendur sína og eru þannig háðar fjölmiðlum, styrktaraðilum og hagsmunum. Nægir að sjá hvernig þekktustu félagslið í vinsælustu íþróttagreinunum sem voru áður í eigu einstaklinga eða samtaka í nærsamfélaginu, eru nú í síauknum mæli í eigu alþjóðlegra fjárfestingasjóða og sum í ríkiseigu. Talað er um ungt íþróttafólk sem tilbúinn varning (homegrown academy product) og það er varla á færi meðalmanns að fara með fjölskylduna á stórmót á borð við Heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu í sumar, þótt hann búi rétt hjá vellinum.

Íþróttirnar eru sem sagt ekkert frábrugðnar öðru í veröldinni. Við erum fyrir löngu búin að skilja við rómantíkina í lífinu fyrir gagnagrunna sem segja okkur hver er efnilegur í körfubolta, hvaða plott eru vinsælust í bíómyndum, hvaða unga fatahönnuð er hægt að kópíera, hvernig sé best að smíða næsta eyrnaorm á Spotify og hvað allt saman kostar og hvað hægt er að rukka.

Í takt við ofangreinda þróun íþrótta á heimsvísu heyrist innan úr íþróttageiranum að það sé sífellt meiri pressa á að vera lélegt afrit af Spáni svo vitnað sé í Heimi Hallgrímsson. Þá var hann að ræða um leikstíl Spánar sem aðrir áttu svo erfitt með að afrita að þeir ættu frekar að þróa sinn eiginn, en svo er það mögulega stjórnun og íþróttauppeldi sem er sífellt meira að ýtast í áttina að verð aða lélegu afriti af Spáni í staðinn fyrir besta útgáfan af Íslandi með tillit til sérstöðu okkar umhverfis.

Margar nauðsynlegar nýjungar hafa litil dagsins ljós undanfarna áratugi í íþróttunum, eins og aukin meðvitund um aðgæsluskyldu (duty of care) og aukin meðvitund um fagmennska í líkamlegri og sálrænni þjálfun. Margt er hinsvegar varasamt í okkar umhverfi. Sífellt er að aukast að íþróttafólk er kallað á æfingar á skóla-eða vinnutíma án þess að fá viðunandi tekjur fyrir, þjálfun barna verður æ líkari þjálfun fullorðinna sem er varasamt og brask með leikmenn í boltagreinum innan áhugamannaumhverfis (sem öll félögin eru í raun, þó ekki alltaf í orði) kallar á spurningar um ábyrgð og eftirlit.

Undirritaður starfar í hjáverkum fyrir bandarískt félag sem á nokkur knattspyrnufélög, og þykist ekki heilagri en svo að hafa mjög gaman að því að kljást á þeim vettvangi. Hins vegar er margt sem má rýna til gagns, og á að gera innan sem utan íþróttanna og félaganna. Til þess er ráðstefnan Meira eða minna Afreks um snemmbundna afreksvæðingu haldin í tengslum við Reykjavík International Games miðvikudaginn 21. janúar í Háskólanum í Reykjavíku. Þar munu þrír erlendir fyrirlesarar setja þessa hluti í samhengi við eigin reynslu úr vinnu í íþróttum og fræðimennsku við háskóla á Norðurlöndum, Bretlandi og í Kanada.

Mark O’Sullivan frá Norska íþróttaháskólanum (NIH) mun ræða um gerviatvinnumennsku sem ryður sér æ meira til rúms í norrænum íþróttum. Siubhean Crowne talar um reynslu sína af því að starfa í enskum knattspyrnuakademíum. Martin Camire frá Háskólanum í Ottawa veltir upp hvort jákvæð nálgun í íþróttauppeldi (positive youth development, tengt jákvæðri sálfræði) sé orðin of einstaklingsmiðuð. Einnig kynnir Peter O’Donoghue frá Háskólanum í Reykjavík athyglisverðar niðurstöður úr langtímagögnum um íþróttaþátttöku íslenskra ungmenna, og pallborð skipað stjórnendum úr íþróttafélögum setur allt sem rætt er um í samhengi við sinn veruleika.

Sérstaklega er mikilvægt að vanda virkilega vel til verka og stíga varlega til jarðar þegar kemur að stefnum og straumum í íþróttauppeldi í félögum sem eru þegar á öllu er botninn hvolft í eigu nærsamfélagsins og hornsteinar í lífi okkar. Þess vegna ætti allt fólk sem er áhugasamt um velferð íþróttafélaganna okkar að líta við í Háskólanum í Reykjavík á miðvikudag, eða horfa í streymi.

Hægt er að skrá sig hér. https://www.rig.is/radstefna-2026

Höfundur er í undirbúningshópi RIG ráðstefnunnar árið 2026, er fagstjóri Afrekssviðs Menntaskólans í Kópavogi og doktorsnemi við Háskólann í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×