Skoðun

Þúsund klifurbörn í frjálsu falli

Róbert Ragnarsson skrifar

Forsvarsfólk Klifurfélagsins hefur lagt fram metnaðarfulla og raunhæfa áætlun um uppbyggingu á aðstöðu sinni en starfsemin er dreifð á á þrjá mismunandi staði í dag, með tilheyrandi óhagræði fyrir börn, foreldra, þjálfara og sjálfboðaliða. Þetta fyrirkomulag eykur kostnað og skutl, flækir skipulag og dregur úr samfellu í starfinu.

Þetta þarf ekki að vera svona.

Klifur er ekki jaðaríþrótt. Klifurfélagið er með afreksíþróttastarf sem hefur skilað Norðurlandameistaratitli og heldur úti öflugu barna- og ungmennastarfi með gríðarlegt forvarnargildi. Aðstaða þeirra er hins vegar á jaðrinum. Tímabundin, þröng og ótrygg. Það er einfaldlega óásættanlegt.

Félagið hefur verið starfandi í rúm 20 ár. Við stofnun voru félagsmenn 19, en eru í dag um 2.500 og þar af eru nærri 1.000 börn.

Íþróttagreinar sem áður voru kallaðar jaðaríþróttir, eins og klifur, hjólabretti og fleiri einstaklingsmiðaðar greinar, eru í dag að ná til stórs hóps barna og ungmenna. Þetta eru íþróttir sem höfða sérstaklega til þeirra sem finna sig síður í hópíþróttum. Þau þurfa betri aðstöðu.

Íþróttir barna og ungmenna hafa fyrir löngu sannað gildi sitt sem hornsteinn forvarna, lýðheilsu og félagslegrar þátttöku. Þar hafa íslensk sveitarfélög staðið sig vel, en framlög sveitarfélaganna til íþrótta- og æskulýðsmála eru með því hæsta í heiminum. Reykjavíkurborg á stóran þátt í því, og á hrós skilið.

Íþróttagreinar sem ná til þúsund barna eiga skilið stöðugan rekstrargrundvöll, viðunandi aðstöðu og raunverulegan stuðning til framtíðar. Það er brýnt að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, og Reykjavíkurborg sérstaklega, mæti þessum greinum.

Forvarnargildið er ótvírætt. Börn sem tilheyra félagsskap og stunda reglubundna hreyfingu glíma síður við áhættuhegðun. Fjárfesting í fjölbreyttu íþróttastarfi barna er því ekki kostnaður, hún er sparnaður til framtíðar.

Nú er komið að borginni og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu að bregðast við af ábyrgð.

Sem leiðtogi Viðreisnar í Reykjavík mun ég beita mér fyrir því að aðstaða fyrir klifur og aðrar sambærilegar greinar verði bætt. Það er í anda Viðreisnar að tryggja valfrelsi. Að börn og ungmenni hafi raunverulega möguleika til að velja sér íþróttir og frístundir sem henta þeim.

Höfundur er stjórnmálafræðingur Msc og frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Viðreisnar í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×