Innlent

„Kanntu ekki manna­siði mann­fjandi“

Jakob Bjarnar skrifar
Össur bókstaflega hellir sér yfir Sigmar og sakar hann um stæka aldursfordóma.
Össur bókstaflega hellir sér yfir Sigmar og sakar hann um stæka aldursfordóma. vísir

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra með meiru, hundskammar Sigmar Guðmundsson, þingmann Viðreisnar, og sakar um aldursfordóma. Össur hellir sér yfir þingmanninn.

Sigmar setti inn sakleysislegar línur á Facebook-síðu sína en þar er hann eins og svo margir aðrir að velta fyrir sér stöðu Bandaríkjaforseta sem er í fréttum mörgum sinnum á dag.

„Það er talsvert framboð af öldnum höfðingjum sem horfa vestur um haf með aðdáun. Þeir eru sem betur fer allir fyrrverandi hitt og þetta.“

Margir telja hann hafa lög að mæla og er tiltölulega rólegt á Facebooksíðu þingmannsins en hann setti þennan status inn fyrir 18 tímum, allt þar til Össur rífur upp penna. Og honum er heitt í hamsi:

„Kanntu ekki mannasiði, mannfjandi?! Ég og þú kunnum að vera annarrar skoðunar en Ólafur Ragnar Grímsson á Evrópusambandinu en skoðanir hans á því, Bandaríkjunum og eftir atvikum öðrum stórveldum, eru fullrar virðingar verðar og þú eða þið í Viðreisn vinnið enga slagi, allra síst um Evrópu, með því að tala niður til fólks.“

Össur er ekki hættur. Hann segir Björn Inga Hrafnsson, hægri hönd Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, hafa lesið orð Ólafs Ragnars úr Silfrinu um aðferðafræði hárrétt og svo hafi verið um marga fleiri sem eru sömu skoðunar.

„Bara svo þú vitir það. Fyrir hönd allra „aldraðra höfðingja“ og „fyrrverandi“ segi ég bara: Betur væri ef Viðreisn hefði einhverja slíka í sínum röðum. Eitt er að klúðra niður fylginu en mér sýnist að þið séuð á sömu leið með Evrópumálin. Sparaðu þér svo aldursfordóma næst þegar þú sest við skjáinn, sem þú út af fyrir sig mættir alveg sleppa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×