Erlent

Viti ekki hvað er í samningi NATO sem semji ekki fyrir hönd Græn­lands

Eiður Þór Árnason skrifar
Jens-Frederik Nielsen, formaður landsstjórnar Grænlands, á blaðamannafundinum nú síðdegis.
Jens-Frederik Nielsen, formaður landsstjórnar Grænlands, á blaðamannafundinum nú síðdegis. Epa/Mads Claus Rasmussen

Formaður landsstjórnar Grænlands segist lítið vita um innihald rammasamkomulags Bandaríkjaforseta og framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem leiddi til stiglækkunar í samskiptum Bandaríkjanna við Grænland, Danmörku og bandalagsríki í Evrópu.

„Ég veit ekki hvað stendur í þessum samningi. En ég hlakka til að vinna að honum í vinnuhópnum,“ sagði Jens-Frederik Nielsen á blaðamannafundi nú síðdegis um viðræður Trumps og Mark Rutte, framkvæmdastjóra NATO. Grænlenski ríkismiðillinn KNR greinir frá.

Nielsen segir jafnframt að Grænlendingar séu til í að sjá aukna hernaðarviðveru á svæðinu og þar með talið varanlega NATO-sveit.

„Við viljum efla öryggi á norðurslóðum með mikilvægum aðgerðum, þar á meðal varanlegri NATO-sveit á Grænlandi og aukinni hernaðarviðveru og æfingum.“

Svaraði litlu um Gullhvelfinguna

Fréttamaður bandarísku stöðvarinnar Fox News var einnig viðstaddur blaðamannafundinn og spurði formann landsstjórnarinnar um skoðun hans á hugmyndum um víðtækt loftvarnarkerfi sem Trump-stjórnin hefur kallað Gullhvelfinguna en Trump nefndi í gær að minnst sé á slíka uppbyggingu í rammasamkomulagi Trumps og NATO.

„Ég vil segja að við hlökkum nú til að sjá frekari niðurstöður starfshópsins sem vinnur að lausn fyrir báða aðila,“ svaraði Nielsen.

Lítið hefur fengist uppgefið um efni viðræðna Trump og NATO á sama tíma og dönsk yfirvöld hafa gefið út að Rutte semji ekki fyrir þeirra hönd.

Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra grænlensku landsstjórnarinnar, tjáði sig einnig um fregnirnar í dag og talaði á svipuðum nótum.

„Ég vil leggja áherslu á að NATO hefur ekki samið fyrir hönd Grænlands. Enginn formlegur samningur hefur verið undirritaður um Grænland án þátttöku Grænlands. Danska stjórnin átti heldur enga fulltrúa á fundinum,“ segir hún í fréttatilkynningu.

Fréttin er í vinnslu og verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×