Hvaða eðli? Viktor Orri Valgarðsson skrifar 24. janúar 2026 14:00 Það er í eðli okkar allra að óttast hið ókunnuga. Það er mannlegt og skiljanlegt að vilja hjúfra sig upp að þeim sem eru næst okkur og virka líkust okkur, sérstaklega þegar ógnir og óvissa fara vaxandi í umhverfi okkar. Snorri Másson skrifaði nýverið að “Sama hvað menn leggja á sig til að afneita hinum þjóðlega þætti tilverunnar, leitar eðlið út um síðir, eins og hefur sannast á síðustu tímum.” Það er sumpart rétt – þegar við óttumst um afkomu okkar og öryggi þá hættir okkur enn frekar en áður til að reisa múra og hugsa um ókunnuga fyrst og fremst sem mögulega óvini. Undanfarin ár höfum við upplifað plágur og einangrun, stríð og þjóðarmorð í Evrópu, og uppgang harðstjórnarhátta víða um heim, sérstaklega í Bandaríkjunum. Við þær aðstæður leitar eðlið stundum út. En hvaða eðli? Mannlegt eðli er ekki bara eitthvað eitt. Það að eitthvað sé „í eðli okkar“ þýðir ekki að við eigum að fagna því og ýta undir það. Það er líka í eðli okkar (flestallra) að hafa samkennd með öðrum og vilja deila vinskap, gleði og samfélagi, jafnvel með fólki sem er ólíkt okkur. Stundum er það erfiðara þegar við erum hrædd. Það þýðir ekki að það sé óskynsamlegra. Mesta blómaskeið mannkyns varð þegar við fólkið í þessum heimshluta fórum að líta á fjölbreytileika, samstarf, viðskipti og flæði fólks yfir landamæri sem styrkleika frekar en ógn. Efnahagslega, menningarlega og félagslega – samkvæmt nokkurn veginn hvaða mælikvarða sem við veljum – höfum við aldrei haft það betra en á þeim tíma. Nú er staðan vissulega erfiðari, sem þarf ekki að koma á óvart eftir efnahagshrun, plágu og styrjaldir. Það þýðir ekki að skyndilega sé nálgun nýlendutímans sú rétta fyrir okkur. Það „gamla, góða Ísland“, sem Snorri og Sigmundur vilja leiða okkur aftur til, var þjóðfélag þar sem fólk dó í hrönnum úr sullaveiki (bandormi) fram á 20. öldina. Dánartíðni árið 1900 – í samfélagi Hannesar Hafstein, sem Snorri vill að við tökum okkur til fyrirmyndar – var um 19,8 andlát á hverja 1000 íbúa, samanborið við 6,8 árið 2024 (skv. Hagstofunni). Almennar lífslíkur voru um 46,6 ár þá, sbr. við 82,7 ár árið 2023. Talið er (sjá bls. 65) að um aldamótin 1900 hafi um 120 börn af hverjum 1000 látist á fyrsta aldursári, sbr. við um 1,4 árið 2024. Aftur: um hundrað og tuttugu börn af hverjum þúsund létust á fyrsta aldursári á þessum tíma að meðaltali, samanborið við eitt og hálft í dag. „Prýðilegt þjóðfélag“ segir Snorri. Við komumst frá þessu samfélagi Hannesar Hafstein af nokkrum ástæðum (m.a. með mikilli þróunaraðstoð frá Bandaríkjunum eftir seinna stríð) en stærsta stökkið í lífsgæðum okkar átti sér stað með tilkomu EES-samstarfsins og því frjálsa flæði fólks frá EES-svæðinu sem fylgdi því og hefur síðan haldið uppi velferðarkerfinu okkar, sjávarútveginum, byggingariðnaðinum, ferðaþjónustunni - og svo mætti lengi telja. Þetta kallar Snorri „hrun vestrænnar siðmenningar“ og að fórna öllu fyrir „heimsenda bragðarefi“. Sú lýsing stangast á við staðreyndir. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar komu um 80% innflytjenda á Íslandi árið 2024 frá Evrópu og öðrum vestrænum ríkjum. Ef við skoðum þau gögn aftur til ársins 1998 (eins langt og gögnin ná) þá sjáum við að um 38% fjölgunar útlendinga í landinu á þeim tíma kemur frá Póllandi og restin nær öll frá öðrum Evrópuríkjum. Vissulega líka ríkjum eins og Filippseyjum og Víetnam, sem forstjóri Landspítalans benti nýverið á að heldur uppi heilbrigðiskerfinu okkar. Þegar kemur að fjölgun hælisleitenda á Íslandi er hún nær öll til komin vegna fólks frá Úkraínu og Venesúela; samkvæmt tölfræði frá Útlendingastofnun hafa samanlagt komið 1841 einstaklingar hingað sem hælisleitendur frá öðrum löndum síðan árið 2015 - sem samsvarar um 0,5% landsmanna. Fjölgun landsmanna með tiltekin erlend ríkisföng sem hlutfall af heildarfjölgun þeirra frá 1998 til 2024 (25 þjóðerni með hæsta hlutfallið). Gögn: Hagstofa Íslands. Það var nú allt hrunið. Punkturinn hér er ekki sá að siðmenning okkar myndi hrynja ef hér væri fleira fólk með uppruna utan Vesturlanda, alls ekki. En þetta varpar ljósi á það að þessi málflutningur Miðflokksins byggir ekki á staðreyndum. Þessari orðræðu er ætlað að höfða til nostalgíu og ótta þjóðarinnar þvert á staðreyndir, vegna þess að það hefur oft reynst gagnlegt í stjórnmálum. Að höfða til þess hluta eðlis okkar sem leitar í að samsama okkur með þeim sem eru lík okkur og líta á ókunnuga sem ógn, og að hugsa um þarfir okkar og þarfir annarra sem andstæður. Ef við gefum okkur á vald þessa hluta eðlis okkar og hugsum ekki um staðreyndir þá hljómar það kannski eins og við séum að gefa „afslátt af sjálfsvirðingu“ okkar með því að tala ensku við fólk sem talar ekki (enn) íslensku, eða eins og það sé „útsmogin áróðursherferð“ að landsmenn með erlendan uppruna hafi spilað lykilhlutverk í að byggja upp eitt mesta velmegunarsamfélag heims hér. Frá þessum sjónarhóli virðist kannski rökrétt að „þarfir annarra“ geti ekki skipt máli og geti ekki farið saman við þarfir okkar. Það er víst „þjónkun við loftkenndar og ómælanlegar hugsjónir í þágu óræðs alþjóðlegs hugmyndafræðilegs málstaðar“ að líta fyrst og fremst á fólk sem fólk, óháð uppruna. Það er ýmislegt í okkar innra eðli sem vill stundum leita út. Óttinn togast á við samkenndina og viljann til að vingast við, vinna með og læra af þeim sem eru ólík okkur. Nostalgían og skotgrafahugsunin togast á við rökhugsun og opinn huga. Það þarf ekkert að skammast sín fyrir þessa togstreitu, sérstaklega þegar við göngum í gegnum erfiða tíma. Þegar upp er staðið er það samt einmitt þá sem er mikilvægast að rækta það góða og uppbyggilega í eðli okkar, ekki að fagna óttanum og lægstu hvötunum - sem alltaf hafa gert fólk og samfélög þeirra verri. Það sem skiptir máli er ekki hvað er í eðli okkar, heldur hvaða eðli við veljum. Höfundur er stjórnmálafræðingur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Innflytjendamál Mest lesið Halldór 24.01.2026 Halldór Samfylking til framtíðar Bjarnveig Birta Bjarnadóttir,Stein Olav Romslo Skoðun Steinunni í borgarstjórn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir Skoðun Við þurfum Dóru Björt í borgarstjórn Íris Stefanía Skúladóttir Skoðun Yfir 250 milljarðar út í loftið Lárus Bl. Sigurðsson Skoðun Ó borg, mín borg Eva Þorsteinsdóttir Skoðun Drengirnir á matseðlinum Sigurður Árni Reynisson Skoðun Gervigreindin er risi á brauðfótum: Hve tæpt stöndum við í raun? Björgmundur Örn Guðmundsson Skoðun Siðlaust en fullkomlega löglegt Jónas Yngvi Ásgrímsson Skoðun Villtur lax má ekki vera fórnarkostnaður Dagur Fannar Ólafsson Skoðun Skoðun Skoðun Apar í fæðingarorlofi Haukur Þorgeirsson skrifar Skoðun Hvaða eðli? Viktor Orri Valgarðsson skrifar Skoðun Við þurfum Dóru Björt í borgarstjórn Íris Stefanía Skúladóttir skrifar Skoðun Samfylking til framtíðar Bjarnveig Birta Bjarnadóttir,Stein Olav Romslo skrifar Skoðun Steinunni í borgarstjórn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar Skoðun Drengirnir á matseðlinum Sigurður Árni Reynisson skrifar Skoðun Ó borg, mín borg Eva Þorsteinsdóttir skrifar Skoðun Villtur lax má ekki vera fórnarkostnaður Dagur Fannar Ólafsson skrifar Skoðun Ísland á krossgötum: Raunsæi eða tálsýn? Davíð Bergmann skrifar Skoðun Gervigreindin er risi á brauðfótum: Hve tæpt stöndum við í raun? Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar Skoðun Fjárfesting í vatni er fjárfesting í framtíðinni Jón Pétur Wilke Gunnarsson skrifar Skoðun Lýðræðisveisla Guðný Birna Guðmundsdóttir skrifar Skoðun Mótmæli bænda í ESB náðu eyrum þingsins í Strassborg Erna Bjarnadóttir skrifar Skoðun Borgin sem við byggjum er borg framtíðarinnar Heiða Björg Hilmisdóttir skrifar Skoðun Um tvo frídaga að vetri: Annan nýjan, hinn eldri Guðmundur D. Haraldsson skrifar Skoðun Viðhaldsstjórnun Sveinn V. Ólafsson skrifar Skoðun Yfir 250 milljarðar út í loftið Lárus Bl. Sigurðsson skrifar Skoðun Inga Sæland Árný Björg Blandon skrifar Skoðun Afnám lagaskyldu til jafnlaunavottunar er gott - en gullhúðað Ólafur Stephensen skrifar Skoðun Happafengur í Reykjavík Hjálmar Sveinsson skrifar Skoðun Hver leyfði aðgangsgjald að náttúruperlum? Runólfur Ólafsson,Breki Karlsson skrifar Skoðun Varúðarmörk eru ekki markmið Jóhann Helgi Stefánsson skrifar Skoðun Opið bréf til meirihluta Reykjavíkurborgar: 850% hækkun gjalda hjá Reykjavíkurborg og skekkt samkeppnisstaða Erik Figueras Torras skrifar Skoðun Fyrir hvern er verið að byggja í Kópavogi? María Ellen Steingrímsdóttir skrifar Skoðun Klappstýrur iðnaðarins Árni Pétur Hilmarsson skrifar Skoðun Af hverju ætti ungt fólk að flytja heim eftir nám? Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir skrifar Skoðun Þegar allir fá rödd — frá prentvél til samfélagsmiðla Ásgeir Jónsson skrifar Skoðun Varúðarmörk eru ekki markmið Jóhann Helgi Stefánsson skrifar Skoðun Við þurfum betri döner í Reykjavík Björn Teitsson skrifar Skoðun Vannæring er aftur komin í tísku Guðrún Nanna Egilsdóttir skrifar Sjá meira
Það er í eðli okkar allra að óttast hið ókunnuga. Það er mannlegt og skiljanlegt að vilja hjúfra sig upp að þeim sem eru næst okkur og virka líkust okkur, sérstaklega þegar ógnir og óvissa fara vaxandi í umhverfi okkar. Snorri Másson skrifaði nýverið að “Sama hvað menn leggja á sig til að afneita hinum þjóðlega þætti tilverunnar, leitar eðlið út um síðir, eins og hefur sannast á síðustu tímum.” Það er sumpart rétt – þegar við óttumst um afkomu okkar og öryggi þá hættir okkur enn frekar en áður til að reisa múra og hugsa um ókunnuga fyrst og fremst sem mögulega óvini. Undanfarin ár höfum við upplifað plágur og einangrun, stríð og þjóðarmorð í Evrópu, og uppgang harðstjórnarhátta víða um heim, sérstaklega í Bandaríkjunum. Við þær aðstæður leitar eðlið stundum út. En hvaða eðli? Mannlegt eðli er ekki bara eitthvað eitt. Það að eitthvað sé „í eðli okkar“ þýðir ekki að við eigum að fagna því og ýta undir það. Það er líka í eðli okkar (flestallra) að hafa samkennd með öðrum og vilja deila vinskap, gleði og samfélagi, jafnvel með fólki sem er ólíkt okkur. Stundum er það erfiðara þegar við erum hrædd. Það þýðir ekki að það sé óskynsamlegra. Mesta blómaskeið mannkyns varð þegar við fólkið í þessum heimshluta fórum að líta á fjölbreytileika, samstarf, viðskipti og flæði fólks yfir landamæri sem styrkleika frekar en ógn. Efnahagslega, menningarlega og félagslega – samkvæmt nokkurn veginn hvaða mælikvarða sem við veljum – höfum við aldrei haft það betra en á þeim tíma. Nú er staðan vissulega erfiðari, sem þarf ekki að koma á óvart eftir efnahagshrun, plágu og styrjaldir. Það þýðir ekki að skyndilega sé nálgun nýlendutímans sú rétta fyrir okkur. Það „gamla, góða Ísland“, sem Snorri og Sigmundur vilja leiða okkur aftur til, var þjóðfélag þar sem fólk dó í hrönnum úr sullaveiki (bandormi) fram á 20. öldina. Dánartíðni árið 1900 – í samfélagi Hannesar Hafstein, sem Snorri vill að við tökum okkur til fyrirmyndar – var um 19,8 andlát á hverja 1000 íbúa, samanborið við 6,8 árið 2024 (skv. Hagstofunni). Almennar lífslíkur voru um 46,6 ár þá, sbr. við 82,7 ár árið 2023. Talið er (sjá bls. 65) að um aldamótin 1900 hafi um 120 börn af hverjum 1000 látist á fyrsta aldursári, sbr. við um 1,4 árið 2024. Aftur: um hundrað og tuttugu börn af hverjum þúsund létust á fyrsta aldursári á þessum tíma að meðaltali, samanborið við eitt og hálft í dag. „Prýðilegt þjóðfélag“ segir Snorri. Við komumst frá þessu samfélagi Hannesar Hafstein af nokkrum ástæðum (m.a. með mikilli þróunaraðstoð frá Bandaríkjunum eftir seinna stríð) en stærsta stökkið í lífsgæðum okkar átti sér stað með tilkomu EES-samstarfsins og því frjálsa flæði fólks frá EES-svæðinu sem fylgdi því og hefur síðan haldið uppi velferðarkerfinu okkar, sjávarútveginum, byggingariðnaðinum, ferðaþjónustunni - og svo mætti lengi telja. Þetta kallar Snorri „hrun vestrænnar siðmenningar“ og að fórna öllu fyrir „heimsenda bragðarefi“. Sú lýsing stangast á við staðreyndir. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar komu um 80% innflytjenda á Íslandi árið 2024 frá Evrópu og öðrum vestrænum ríkjum. Ef við skoðum þau gögn aftur til ársins 1998 (eins langt og gögnin ná) þá sjáum við að um 38% fjölgunar útlendinga í landinu á þeim tíma kemur frá Póllandi og restin nær öll frá öðrum Evrópuríkjum. Vissulega líka ríkjum eins og Filippseyjum og Víetnam, sem forstjóri Landspítalans benti nýverið á að heldur uppi heilbrigðiskerfinu okkar. Þegar kemur að fjölgun hælisleitenda á Íslandi er hún nær öll til komin vegna fólks frá Úkraínu og Venesúela; samkvæmt tölfræði frá Útlendingastofnun hafa samanlagt komið 1841 einstaklingar hingað sem hælisleitendur frá öðrum löndum síðan árið 2015 - sem samsvarar um 0,5% landsmanna. Fjölgun landsmanna með tiltekin erlend ríkisföng sem hlutfall af heildarfjölgun þeirra frá 1998 til 2024 (25 þjóðerni með hæsta hlutfallið). Gögn: Hagstofa Íslands. Það var nú allt hrunið. Punkturinn hér er ekki sá að siðmenning okkar myndi hrynja ef hér væri fleira fólk með uppruna utan Vesturlanda, alls ekki. En þetta varpar ljósi á það að þessi málflutningur Miðflokksins byggir ekki á staðreyndum. Þessari orðræðu er ætlað að höfða til nostalgíu og ótta þjóðarinnar þvert á staðreyndir, vegna þess að það hefur oft reynst gagnlegt í stjórnmálum. Að höfða til þess hluta eðlis okkar sem leitar í að samsama okkur með þeim sem eru lík okkur og líta á ókunnuga sem ógn, og að hugsa um þarfir okkar og þarfir annarra sem andstæður. Ef við gefum okkur á vald þessa hluta eðlis okkar og hugsum ekki um staðreyndir þá hljómar það kannski eins og við séum að gefa „afslátt af sjálfsvirðingu“ okkar með því að tala ensku við fólk sem talar ekki (enn) íslensku, eða eins og það sé „útsmogin áróðursherferð“ að landsmenn með erlendan uppruna hafi spilað lykilhlutverk í að byggja upp eitt mesta velmegunarsamfélag heims hér. Frá þessum sjónarhóli virðist kannski rökrétt að „þarfir annarra“ geti ekki skipt máli og geti ekki farið saman við þarfir okkar. Það er víst „þjónkun við loftkenndar og ómælanlegar hugsjónir í þágu óræðs alþjóðlegs hugmyndafræðilegs málstaðar“ að líta fyrst og fremst á fólk sem fólk, óháð uppruna. Það er ýmislegt í okkar innra eðli sem vill stundum leita út. Óttinn togast á við samkenndina og viljann til að vingast við, vinna með og læra af þeim sem eru ólík okkur. Nostalgían og skotgrafahugsunin togast á við rökhugsun og opinn huga. Það þarf ekkert að skammast sín fyrir þessa togstreitu, sérstaklega þegar við göngum í gegnum erfiða tíma. Þegar upp er staðið er það samt einmitt þá sem er mikilvægast að rækta það góða og uppbyggilega í eðli okkar, ekki að fagna óttanum og lægstu hvötunum - sem alltaf hafa gert fólk og samfélög þeirra verri. Það sem skiptir máli er ekki hvað er í eðli okkar, heldur hvaða eðli við veljum. Höfundur er stjórnmálafræðingur.
Gervigreindin er risi á brauðfótum: Hve tæpt stöndum við í raun? Björgmundur Örn Guðmundsson Skoðun
Skoðun Gervigreindin er risi á brauðfótum: Hve tæpt stöndum við í raun? Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar
Skoðun Opið bréf til meirihluta Reykjavíkurborgar: 850% hækkun gjalda hjá Reykjavíkurborg og skekkt samkeppnisstaða Erik Figueras Torras skrifar
Gervigreindin er risi á brauðfótum: Hve tæpt stöndum við í raun? Björgmundur Örn Guðmundsson Skoðun