Skoðun

Stóru málin: Börn í leik­skólum, ekki á bið­listum

Aðalsteinn Leifsson skrifar

Lausn á biðlistum eftir leikskóla á að vera forgangsmál í Reykjavík. Það er augljóslega lykilatriði fyrir velferð barna og fjölskyldna en einnig fyrir jafnrétti og efnahag. Í nýrri skýrslu aðgerðahóps ráðuneyta, Sambands íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins kemur fram að efnahagslegur ábati af því að tryggja börnum leikskólavist frá því að fæðingarorlofi sleppir er um 11 milljarða króna á ári. Ástæðuna er m.a. að finna í töpuðum tækifærum foreldra til að afla fjölskyldunni tekna. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir ítrekuð loforð undanfarinna ára, er vandinn viðvarandi í Reykjavík.

Ekki afþakka aðstoð

Eitt af því sem má gera strax er að nýta einkaframtakið. Hætta að afþakka aðstoð. Það krefst skýringa af hverju borgin segir upp leigusamningi við einkarekinn leikskóla sem er með pláss fyrir 54 börn og skilji fjölskyldur þeirra eftir í óvissu á sama tíma og biðlistar eru langir. Ef annar aðili en sveitarfélagið getur boðið upp á faglegt leikskólastarf eða dagvistarúrræði, sem uppfyllir viðmið, þá eigum við að segja já takk.

Bætum starfsaðstöðuna

Annað sem þarf að gera strax er að ráðast í aðgerðir til að bæta starfsaðstæður; rými, hljóðvist og aðstöðu. Ég ætla ekki að lengja þessa grein með því að tala um Brákarborg, þar sem kostnaður er kominn í 3.2 milljarða, nema til að undirstrika að við þurfum að byggja einfaldar, staðlaðar byggingar, að forskrift fagfólks, þar sem kostnaður er þekktur.

Minnkum starfsmannaveltu

Starfsmannavelta ófaglærðs starfsfólks í leikskólum, sem nú er meira en helmingur starfsfólks, er um 33%. Því þarf að finna leiðir til þess að halda betur utan um núverandi starfsfólk á sama tíma og við gerum leikskólann að aðlaðandi vinnustað með tækifæri til starfsþróunar.

Fjölgum starfsfólki

Síðan þarf að skapa styðjandi umhverfi þar sem starfsfólk sem er ekki með leikskólakennaramenntun upplifir tækifæri og stuðning til að auka þekkingu og færni og vaxa í starfi og launum. Síðasta haust vantaði fólk í tæplega 40% leikskóla á Íslandi og aðeins rúmlega 26% starfsmanna leikskóla hafa kennaramenntun. Átak til að fjölga leikskólakennurum hefur borið nokkurn árangur en ef aðeins 82 útskrifast á ári, sem er meðaltal síðustu þriggja ára, tekur það meira en 30 ára að mennta þann fjölda sem vantar, að því gefnu að enginn hætti eða fari á eftirlaun.

Samstarf við foreldra og starfsfólk

Á meðan sveitarfélög í kringum okkur hafa ráðist í aðgerðir til þess að takast á við biðlista og lokanir hefur lítið gerst hjá Reykjavíkurborg. Sú lausn á bráðavandanum sem núverandi meirihluti hefur kynnt er að stytta dvalartíma barna, hækka gjaldskrá fyrir heilsdagsvistun og auka skráningaskyldu foreldra. Nýr meirihluti í Reykjavík þarf þegar í stað að setja af stað samtal, eins og gert hefur verið í nágrannasveitarfélögum, við starfsfólk og foreldra til þess að finna þær leiðir sem mest samstaða getur verið um til þess að fjölga leikskólaplássum og koma í veg fyrir lokanir. Göngum í þetta!

Höfundur er frambjóðandi í oddvitakjöri Viðreisnar í Reykjavík




Skoðun

Sjá meira


×