Skoðun

U-beygja fram­undan

Eyjólfur Ármannsson skrifar

Óreiðan sem hefur skapast á leigubifreiðamarkaði hefur ekki farið fram hjá neinum. Stöðvaskylda og fjöldatakmarkanir voru afnumdar með einu pennastriki árið 2023. Þá vantaði skýran lagaramma sem tryggir aðhald og virkt eftirlit, sérstaklega gagnvart sjálfstætt starfandi bílstjórum.

Fjöldi nýrra aðila hefur streymt inn í greinina, oft án nægilegrar þjálfunar eða aðhalds. Breytingarnar opnuðu leið fyrir þá sem áður stóðust ekki lágmarkskröfur til ráðninga á leigubifreiðastöðvum til að starfa sjálfstætt. Gæðaeftirlit sem áður fólst í aðgangskerfi og eftirliti stöðvanna hvarf.

Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa.Dæmi eru um að fyrstu kynni ferðamanna af Íslandi séu deilur við leigubílstjóra. Enn alvarlegri eru þó dæmin um ofbeldi og sakfellingar fyrir kynferðisbrot. Í viðhorfskönnun Maskínu kemur fram að 81 prósent þjóðarinnar séu óánægð með núverandi kerfi.

Frumvarp mitt um breytingar á leigubifreiðalögum er á forræði þingsins og ég vonast til að það verði afgreitt fljótlega úr umhverfis- og samgöngunefnd. Meginbreytingin felur í sér endurvakningu stöðvaskyldu. Með því tryggjum við að enginn leigubílstjóri starfi án aðhalds og eftirlits stöðvar.

Ég hef sett nýja reglugerð í samráðsgátt og mun kynna nýja námskrá þegar samráðsferli er lokið. Öll próf verða héðan í frá þreytt án utanaðkomandi aðstoðar. Einnig þurfa allir þeir bílstjórar sem fengu leyfi eftir lagabreytinguna 2023 að standast próf að nýju vilji þeir endurnýja leyfið.

Leigubifreiðastjórar með tilskilin leyfi verða í framtíðinni auðkenndir með sérstökum númeraplötum og gerð er krafa um að leyfisskírteini bílstjóra sé sýnilegt á mælaborði. Einnig verða auknar kröfur um sýnileika verðskrár utan á bílnum, svo farþegar sjái glögglega hvað startgjald er og hvað meðalferð kostar áður en haldið er af stað.

Leigubílar þurfa nú að halda rafræna skrá yfir seldar ferðir sem byggir á gervihnattaupplýsingum. Þetta tryggir að til séu skýr gögn ef upp koma kvartanir eða alvarleg atvik til rannsóknar. Leigubifreiðastöðvum verður jafnframt gert að halda utan um formlega atvikaskráningu vegna kvartana. Loks veitum við Samgöngustofu auknar heimildir svo að stofnunin geti hafið frumkvæðiseftirlit með markaðnum og fær stofnunin jafnframt auknar heimildir til að svipta bílstjóra leyfi gerist þeir brotlegir.

Með þessum breytingum leggjum við grundvöll að öflugum og faglegum leigubifreiðamarkaði sem speglar þá gestrisni og þjónustulund sem við viljum að einkenni Ísland. Leigubílaþjónusta er oft fyrstu kynni ferðamanna af landinu og síðasta minningin þegar heim er haldið. Farþegar sem nýta sér þjónustu leigubifreiða eiga rétt á að geta treyst á örugga ferð, gagnsætt verðlag og faglega þjónustu. Jafnframt eiga leigubílstjórar rétt á starfsumhverfi þar sem leikreglur eru skýrar og þeim fylgt eftir.

Fyrir íslenskan leigubílamarkað er því langþráð u-beygja framundan.

Höfundur er innviðaráðherra.




Skoðun

Sjá meira


×