Erlent

Dauða­refsing slegin út af borðinu í máli Mangiones

Árni Sæberg skrifar
Luigi Mangione verður ekki tekinn af lífi fyrir morðið á Brian Thompson.
Luigi Mangione verður ekki tekinn af lífi fyrir morðið á Brian Thompson. Curtis Means-Pool/Gett

Alríkissaksóknarar í Bandaríkjunum munu ekki geta farið fram á dauðarefsingu yfir Luigi Mangione, sem ákærður hefur verið fyrir að ráða Brian Thompson, forstjóra UnitedHealthcare, af dögum árið 2024.

Þann 4. desember 2024 var Brian Thompson, forstjóri UnitedHealthcare, eins stærsta sjúkratryggingafyrirtækis Bandaríkjanna, skotinn til bana fyrir utan hótel á Manhattan. Eftir umfangsmikla leit var Mangione, sem er í dag 27 ára gamall, handtekinn og hann er grunaður um morðið.

Hann var ákærður af alríkissaksóknurum fyrir manndráp og fyrir að nota ólöglegan hljóðdeyfi þegar hann skaut Thompson. Héraðssaksóknari í New York ákærði Mangione einnig fyrir manndráp og hryðjuverk en hryðjuverkaákærunum var síðar vísað frá.

Pam Bondi, ríkissaksóknari Bandaríkjanna, hefur sagt að farið verði fram á dauðarefsingu. Nú hefur dómari í New York aftur á móti vísað manndrápsákæru alríkissaksóknara frá dómi af réttarfarsástæðum og þannig tekið fyrir möguleikann á því að Mangione verði dæmdur til dauða, að því er segir í frétt AP.

Í frávísunarúrskurði sínum sagði dómarinn að hann hefði vísað manndrápsákærunni frá „til þess að koma í veg fyrir dauðarefsing væri möguleiki sem kviðdómur þyrfti að íhuga.“


Tengdar fréttir

Reyndi að frelsa Mangione vopnaður pítsaskera

Karlmaður hefur verið handtekinn fyrir að þykjast vera fulltrúi bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) til að frelsa Luigi Mangione úr haldi. Maðurinn var með pítsaskera í fórum sínum.

Maduro, Diddy og Mangione í sama fangelsi

Stuttu eftir að bandarísk herþota með Nicolás Maduro forseta Venesúela og eiginkonu hans Ciliu Flores lenti á flugvelli skammt frá New York-borg voru hjónin flogin með þyrlu í eitt alræmdasta fangelsi Bandaríkjanna: Metropolitan detention center. Þar dvelur einnig Luigi Mangione, sem grunaður er um að hafa myrt forstjóra UnitedHealthcare, og þangað til nýlega Sean Combs, betur þekktur sem P Diddy.

Vilja dauðarefsingu af borðinu vegna hagsmunaáreksturs ráðherra

Lögmenn Luigis Mangione, sem hefur verið ákærður fyrir að hafa myrt Brian Thompson, forstjóra UnitedHealthcare, í fyrra, segja að krafa Pam Bondi, dómsmálaráðherra, um dauðarefsingu sé ólögmæt. Hún hafi á árum áður starfað sem málafylgjumaður hjá fyrirtæki sem starfaði fyrir móðurfélag UnitedHealthcare.

Hryðjuverkaákærum vísað frá

Dómari hefur vísað frá tveimur af ákærunum gegn Luigi Mangione, sem sakaður er um að hafa myrt Brian Thompson, forstjóra UnitedHealthcare, í fyrra. Ekki verður réttað yfir Mangione í New York fyrir hryðjuverk en morðákærur standa eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×