Erlent

Helsta klappstýran sögð slegin yfir sálar­á­standi Trumps

Kjartan Kjartansson skrifar
Mynd sem slóvakíska stjórnarrráðið birti af Robert Fico, forsætisráðherra, (t.v.) með Donald Trump Bandaríkjaforseta (t.h.) í Mar-a-Lago í síðustu viku.
Mynd sem slóvakíska stjórnarrráðið birti af Robert Fico, forsætisráðherra, (t.v.) með Donald Trump Bandaríkjaforseta (t.h.) í Mar-a-Lago í síðustu viku. Stjórnarráð Slóvakíu

Forsætisráðherra Slóvakía og einn helsta klappstýra Donalds Trump í Evrópu er sagður hafa verið sleginn yfir því hvernig bandaríski forsetinn talaði til hans og sálarástandi hans á dögunum. Trump hafi virst „hættulegur“. Ráðherrann hafnar fréttum af meintum ummælum hans.

Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, fundaði með Trump í Mar-a-Lago á Flórída 17. janúar. Fimm dögum síðar sagði Fico evrópskum kollegum sínum að hann hefði áhyggjur af „andlegu ástandi“ Bandaríkjaforseta vegna þess hvernig hann talaði.

Dagblaðið Politico hefur þetta eftir erindrekum fimm Evrópuríkja sem voru upplýstir um samtal Fico við kollega sína þegar leiðtogaráð ESB kom saman til óformlegs neyðarfundar til að ræða ásælni Bandaríkjanna í Grænland 22. janúar.

Fico er sagður hafa notað orðið „hættulegur“ um hvernig Trump kom fyrir á fundi þeirra á Flórída. Hann er sagður hafa lýst því þannig að Trump væri „viti sínu fjær“.

Hafnar fréttinni alfarið

Engum sögum fer af því hvað Trump á að hafa sagt við slóvakíska leiðtogann nákvæmlega sem skaut honum skelk í bringu.

Talsmenn Fico svöruðu ekki fyrirspurnum Politico um það sem er haft eftir honum um Trump. Fico fordæmdi hins vegar fréttaflutning blaðsins í færslu á samfélagsmiðlum í morgun.

„Ég hafna alfarið haturslygum frjálslyndu málpípu Brussel Politico,“ segir í færslunni.

Fullyrðir Fico að enginn hafi heyrt eða orðið vitni að neinu sem hann sagði um bandaríska forsetann. Hann hafi alls ekki rætt óformlega við neina „forsætisráðherra eða forseta“ um fund sinn með Trump á neyðarfundinum í Brussel.

Talsmaður Hvíta hússins sagði fregnirnar uppspuna evrópskra embættismanna. Fundur Trump og Fico hefði verið jákvæður og uppbyggilegur.

Ein helsta klappstýran í Evrópu

Ætluð ummæli Fico um Trump vekja ekki síst athygli vegna þess að slóvakíski forsætisráðherran hefur verið ein helsta klappstýra Bandaríkjaforseta í Evrópu. Hann hefur meðal annars stutt nálgun Bandaríkjastjórnar á stríðið í Úkraínu og tekið undir gagnrýni Trump á Evrópu.

Evrópskir leiðtogar eru sagðir hafa vaxandi áhyggjur af heilsu Trump og ófyrirsjáanlegri hegðun hans, ekki síst vegna ásælni hans í Grænland. 

Trump hefur ítrekað ýjað að því að hann gæti beitt vopnavaldi til þess að hrifsa Grænland af Dönum þótt hann hefði sagt fundargestum í Davos í síðustu viku að hann ætlaði sér ekki að láta verða af þeim hótunum.

Virtist gleyma hvað Alzheimers héti

Trump hafnaði því sjálfur í viðtali í vikunni að hann þjáðist af nokkurs konar elli- eða vitglöpum. Hann virtist þó gleyma hvað Alzheimerssjúkdómurinn héti þegar hann neitaði því að hann væri haldinn honum.

Í sömu ræðu í Davos virtist Trump ítrekað ruglast á Íslandi og Grænlandi. Honum hefur einnig orðið tíðrætt um að lækka verð á lyfjum í Bandaríkjunum um mörg hundruð prósent, það er að segja langt umfram heildarsöluverð þeirra.

Allt þetta ásamt, mari á báðum höndum sem forsetinn hefur reynt að hylja með einhvers konar farða, hefur gefið vangaveltum um hnignandi heilsu forsetans, sem er 79 ára gamall, byr undir báða vængi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×