Skoðun

Má vopnaframleiðandi eiga fjölmiðla?





Fjölmiðlar eru aftur að komast á dagskrá íslenskrar þjóðfélagsumræðu. Það gerist í kjölfar tilkynningar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra um að til standi að skipa nýja fjölmiðlanefnd til að undirbúa fjölmiðlalög sem ráðherrann vill að verði afgreidd á Alþingi ekki síðar en í vor.

En það er víðar en á Íslandi sem fjölmiðlar eru í brennidepli. Í Bandaríkjunum er staða, áhrif og fréttaflutningur fjölmiðla til dæmis í umræðunni í tengslum við forsetakosningarnar. Í Frakklandi fara fram  líflegar umræður um eignarhald á fjölmiðlum í kjölfar þess að drjúgur hluti af fjölmiðlum landsins komst í vor í hendur umdeilds auðkýfings og vopnaframleiðanda, Serge Dassault að nafni. Hann er tæplega áttræður en svo sprækur að hann bauð sig fram til öldungadeildar franska þingsins og náði kjöri í kosningunum sem fram fóru fyrir nokkrum dögum. Umræðurnar í Frakklandi eru áhugaverðar fyrir okkur Íslendinga vegna þess að sumt í þeim, einkum spurningin um eignarhaldið,  kallast á við fjölmiðlamálið í sumar.

Það var ritstjóri Morgunblaðsins sem fyrstur tengdi nafn Dassault og yfirtöku hans á frönskum fjölmiðlum við íslensk málefni. Var það stuttu eftir að Dassault, sem er aðaleigandi samnefnds stórfyrirtækis er framleiðir vopn og flugvélar, eignaðist ráðandi hlut í fjölmiðlasamsteypunni Socpresse sem á um 70 blöð og tímarit í Frakklandi og Belgíu.  Í ritstjórnargrein í Morgunblaðinu varpaði Styrmir Gunnarsson fram þessari spurningu “Hvers vegna vill vopnaframleiðandi eignast fjölmiðil?”  Og svarið var: “Ríkisstjórnir eru helztu viðskiptavinir vopnaframleiðenda og stjórnmálamönnum þykir betri kostur að hafa fjölmiðla með sér en á móti”. Og bætti við: “Stórfyrirtæki í öðrum rekstri, sem seilast til áhrifa í fjölmiðlaheiminum, gera það ekki vegna þess að þau telji að það sé hægt að hagnast svo mikið á rekstri fjölmiðla. Þau leita eftir eignaraðild í fjölmiðlum til þess að hafa áhrif og þá fyrst og fremst til þess að hafa áhrif í þágu eigin hagsmuna”.

Það voru vangaveltur af þessu tagi, vangveltur um hugsanlega misnotkun auðkýfinga á fjölmiðlum, sem voru helsta röksemd ritstjórans og skoðanabræðra hans fyrir stuðningi við fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Það sem gerði málflutning þessara manna tortryggilegan var sú staðreynd að þeir höfðu ekki haft áhyggjur af samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlun, fákeppni eða einokun á markaði eða fjölbreytni á íslenskum fjölmiðlamarkaði þegar hún var sannanlega miklu minni en nú, þegar miðlar sem þeim voru þóknanlegir og þeir höfðu sjálfir ítök í voru ráðandi á markaðnum. Margir skynja því mræðuna og fjölmiðlafrumvarpið sáluga sem viðleitni gamalla valdahópa í þjóðfélaginu til að endurheimta stöðu sína og beygja keppinautana. Er raunar ekki vafi á því að þar liggur skýringin á fjölmiðlamálinu að drjúgum hluta.

Þar með er ekki sagt að engar málefnalegar spurningar séu á dagskrá. Þær eru fyrir hendi, jafnt á Íslandi sem í Frakklandi. En til að átta sig á málinu í heild er nauðsynlegt að gera greinarmun á pólitísku umræðunni annars vegar og stöðu fjölmiðla hins vegar.

Víkjum fyrst að stöðu fjölmiðla. Í Frakklandi er ástandið þannig að dagblaðalestur hefur minnkað með ári hverju. Það er þróun sem reyndar er alþjóðleg. Stafar hún af ýmsum ástæðum, áhugaleysi ungu kynslóðarinnar á prentmiðlum (20% tvítugra Frakka lesa núna dagblöð, voru 30% fyrir rúmum áratug og 40% á dögum ´68-kynslóðarinnar), auknu framboði af afþreyingu, tilkomu netsins, samkeppni frá ókeypis "metró-blöðum" og fleiru. Frönsk blöð njóta ríkisstyrkja, sem í sumum tilvikum munu nema allt að 15% af heildartekjum þeirra, og telja sérfræðingar að þessir styrkir hafi fremur aukið á vanda blaðanna en greitt götu þeirra því þeir hafi ýtt undir óhagkvæmar ákvarðanir á ýmsum sviðum rekstrarins. Dagblöð sem ná til Frakklands alls hafa nú 40% minni útbreiðslu en þau höfðu fyrir þrjátíu árum, eintökum hefur fækkað úr 4 milljónum í 2,3 milljónir. Hvert þúsund Frakka kaupir aðeins 164 blöð. Í Noregi er hlutfallið 704 á móti 1000 og í Bretlandi 402 á móti þúsund. Stórblöðin frönsku hafa tapað lesendum og kaupendum í stórum stíl og flaggskip franskrar blaðamennsku eins og Le Monde, Le Figaro, France Soir, Libération og fleiri hafa orðið að draga saman seglin, fækka blaðamönnum og minnka lesmálið. Mörg frönsk dagblöð riða á barmi gjaldþrots. Ástandið á dagblaðamarkaðnum er vægast sagt mjög alvarlegt.Og það er athyglisvert hve útbreiðsla hinna nafnfrægu frönsku dagblaða er í rauninni lítil: kaupendur stórblaðanna Le Monde og Le Figaro eru rétt um 340 þúsund að hvoru blaði; til samanburðar selst The Daily Telegraph í London í 900 þúsund eintökum og götublaðið Sun þar í borg í 3,4 milljónum eintaka.

Hin erfiða fjárhagsstaða franskra dagblaða og raunar einnig annarra fjölmiðla hefur vakið upp spurningar um hvernig bregðast eigi við, hvernig ná eigi fyrri markaðsstöðu á ný, hvernig vekja eigi áhuga nýrra kynslóða og svo framvegis. Þessar spurningar tengjast í sjálfu sér ekki eignarhaldi fjölmiðlanna heldur eru almennar og faglegar. En það er augljóst að fjölmiðlar sem fyrirtæki hljóta að fagna því ef fjársterkir aðilar koma með nýtt fé inn í reksturinn og vilja blása til sóknar í stað þess að horft sé af vanmætti og aðgerðaleysi á ógæfulega þróun. Þegar auðugir menn eins og Serge Dassault kaupa fjölmiðla sem eiga í miklum rekstrarerfiðleikum eru þeir – a.m.k. ef vel tekst til  – að bjarga atvinnu fjölda fólks og hleypa nýjum stoðum undir reksturinn.

Þá að pólitísku umræðunni. Sergei Dassault hefur lengi verið áberandi í frönsku þjóðlífi. Hann er talinn einn allra ríkasti maður landsins og fyrirtæki hans hefur verið í sviðsljósinu í marga áratugi. Maður sem framleiðir vopn fyrir franska ríkið er eðli málsins samkvæmt umdeildur en Dassault hefur gefið færi á sér með afdráttarlausum skoðunum sínum á mönnum og málefnum. Hann er hægri maður, ágætur vinur Chiracs Frakklandsforseta og hefur lengi haldið því fram að franskir fjölmiðlar séu of vinstri sinnaðir. Það er kannski eitthvað til í því; a.m.k. hafa franskir fjölmiðlar aldrei verið sakaðir um hægri slagsíðu! Dassault hefur verið ósáttur við umfjöllun dagblaðanna um stjórnmál og viðskipti og finnst þau t.d. alltof glannaleg og ábyrgðarlaus í skrifum um viðkvæm viðskiptamál. Eru þó blöð í Frakklandi sögð mun hæverskari á þessu sviði en í flestum öðrum löndum Evrópu. Það sem vakti uppnám þegar Dassault eignaðist ráðandi hluti í Socpresse voru þau ummæli hans að hann vildi breyta fjölmiðlunum, draga úr áhrifum vinstri manna og byggja upp “ábyrgari” umfjöllun um stjórnmál og viðskipti. Þetta þótti frönskum blaðamönnum nánast árás á frelsi fjölmiðla og fjölmiðlamanna.

Og þessari deilu er ekki lokið heldur er á suðupunkti um þessar mundir. Stutt er síðan Dassault skipti um ritstjóra á flaggskipi sínu, hægriblaðinu Le Figaro. Í leynilegri atkvæðagreiðslu á ritstjórninni fyrir nokkrum dögum lýstu um 90% blaðamannanna, 376 af 404, stuðningi við yfirlýsingu þar sem hinn nýi eigandi var varaður við að skipta sér af starfsháttum ritstjórnarinnar.

Svo við tengjum málið við yfirskrift þessarar greinar, Má vopnaframleiðandi eiga fjölmiðla?, þá er það ekki sú staðreynd að Dassault er vopnaframleiðandi sem veldur mönnum áhyggjum í Frakklandi. Í lýðræðisríki þar sem stjórnvöld eiga lögleg viðskipti við vopnaframleiðendur er tæpast hægt að líta á hergagnaiðnaðinn öðru augum en atvinnu- og viðskiptalífið almennt.  Þó að vopn séu ógeðfelld í augum margra eru þau nauðsynleg til varnar sérhverju þjóðríki og því má segja að framleiðsla þeirra sé þjóðþrifaverk. Með því að tengja spurninguna um eignarhald á fjölmiðlum við tiltekna starfsemi eigenda eins og ritstjóri Morgunblaðsins gerði í sumar má því segja að verið sé því verið að rugla umræðuna.

Það sem veldur mönnum áhyggjum í Frakklandi er að fjársterkur aðili ætlar að reyna að sveigja fjölmiðla að pólitískum áherslum sínum og sölsar í því skyni undir sig suma þekktustu og útbreiddustu fjölmiðla landsins. Engum hefur þó dottið í hug svo kunnugt sé að leysa málið með því að banna auðkýfingum í Frakklandi eða mönnum sem stunda tiltekna atvinnustarfsemi, svo sem hergagnaiðnað, að eiga fjölmiðla. Ekki hefur heldur verið stungið upp á því í Frakklandi að fara leið ríkisstjórnar Íslands og banna markaðsráðandi fyrirtækjum að eiga fjölmiðla. Þar í landi yrði slíkt talið ganga gegn grundvallarreglum lýðræðisríkis og réttarríkis.

Sannleikurinn er sá að ætli Dassault raunverulega að fylgja orðum sínum eftir mun hann mæta margvíslegum hindrunum. Þó að hann sé ern og sprækur þessa dagana vinnur aldurinn ekki beinlínis með honum – en við skulum þó láta það liggja milli hluta. Stærsta hindrunin  er markaðurinn sjálfur. Samdrátturinn í dagblaðalestri í Frakklandi stafar alveg áreiðanlega ekki af meintri vinstri slagsíðu blaðanna. Og lausnin felst að sama skapi ekki í aukinni hægri-pólitískri blaðamennsku. Viðskiptahugmyndin er með öðrum orðum galin! Vonandi verður karlinn búinn að uppgötva þetta áður en hann er búinn að tapa of mörgum milljónum franka. Um leið og fjölmiðlar Dassault hætta að vera áhugaverðir fyrir hinn almenna lesanda skapast tækifæri á markaðnum fyrir keppinauta hans. Þá skiptir engu máli hve ríkur Dassault er. Í markaðsþjóðfélagi lúta dagblöð og aðrir fjölmiðlar nefnilega sömu lögmálum og vörur og þjónusta; neytendur eru fljótir forða sér ef þeir eru ósáttir, hversu ákafur sem framleiðandinn er að þröngva vörunni upp á þá. Og þeir sem hafa áhyggjur af of miklum ítökum Dassault, þótt í skamman tíma verði, ættu að hafa í huga að almenningur í landinu hefur aðgang að fjölbreyttari upplýsinga- og skoðanalindum en nokkru sinni fyrr. Dagblöð og sjónvarpsstöðvar einoka ekki þjóðfélagsumræðuna með sama hætti og fyrr. Í þessu ljósi er umræðan um Dassault ýkjukennd og menn ættu að forðast að mikla fyrir sér þá stöðu sem upp er komin í frönskum fjölmiðlaheimi.

Sumt af því sem að ofan er rakið kallast á við umræðuna hér heima í sumar. Menn hafa velt því fyrir sér hvort fjársterkir menn og eigendur fyrirtækja sem eru umsvifamikil á markaði geti ekki misnotað aðstöðu sína og beitt fjölmiðlum sínum í þágu sinna hagsmuna og gegn keppinautum og stjórnvöldum. Ómögulegt er annað en að svara slíkri spurningu játandi. Tæknilega er hægt að nota – og þá um leið misnota – alla fjölmiðla að geðþótta  eigenda - og má segja að síkt sé innbyggt í sjálft hugtakið fjölmiðlafrelsi. En þeir sem best þekkja til á þessum markaði hér á landi vita að ekkert slíkt er í gangi. Hér hefur fjölbreytni í fjölmiðlun stóraukist á undanförnum árum. Að sönnu hefur eignarhald þjappast saman en það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt í litlu þjóðfélagi og að líkindum er talsverð samþjöppun eignarhalds forsenda fyrir því að hægt sé að byggja þá upp til sóknar og viðunandi rekstrar.

Guðmundur Magnússon – gm@frettabladid.is

 




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×