Skoðun

Ríkisstjórnin fann breiðu bökin

Einar K. Guðfinnsson skrifar um aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin segist vilja finna breiðu bökin til þess að bera hærri skatta og hlífa öðrum. Afraksturinn sem við sjáum nú í nýjum skattalögum sýnir að stjórnin er ekki mjög fundvís á þessa hluti. Skattarnir hækka hjá öllum, líka þeim sem hafa lægstu launin. Og í sumum skattalagabreytingum virðist ríkisstjórninni hafa lánast það að slæma högginu einkanlega þar sem síst skyldi. Nýju lögin um orku- og auðlindaskatta eru dæmi um þetta.

Þar virðist ótrúlega margt gert með öfugum klónum, eins og neðangreind dæmi sýna:

1. Þetta eru ekki eiginlegir orku- né auðlindaskattar. Þetta eru bara skattahækkanir í dularbúningi þar sem óorði er komið á umhverfismál í leiðinni.

2. Eldsneytisskattar og kolefnisgjöld hækka eldsneyti, bensín og olíu. Þessi gjöld hækka um allt að 50% á þessu ári. Þetta bitnar einkanlega á flutningskostnaði á landsbyggðinni. Þar með hækkar vöruverðið sérstaklega á landsbyggðinni, þar sem það er þó oft hæst fyrir.

3. Gjaldtökuaðferð ríkisstjórnarinnar er þannig samansett gagnvart hitaveitum, að það leiðir til mestrar hækkunar þar sem verðið er hæst fyrir. Enn er það landsbyggðin sem blæðir.

4. Gjöldin hækka mjög rekstrarkostnað fjölskyldubíls, sem almenningur getur ekki verið án. Ný skattlagning á þessu ári eykur rekstrarkostnaðinn um 40 til 50 þúsund krónur á venjulegum bíl.

5. Að mati þeirra sem gleggst þekkja til, er nýi skatturinn þungt högg á nýsköpunarfyrirtækin, sem ríkisstjórnin þykist þó styðja. Sem sagt ekkert að marka þær stuðningsyfirlýsingar.

6. Þessi skattlagning skerðir samkeppnisstöðu útflutningsgreina okkar, sjávarútvegs og iðnaðar til dæmis, en hjálpar útlendu fyrirtækjunum sem við keppum við. Stuðlar því að fækkun starfa.

7. Gjaldtakan bitnar mjög á ferðaþjónustunni, hækkar fargjöld, fælir erlenda ferðamenn frá landinu og skerðir þannig útflutningstekjur og atvinnusköpun. Ferðalög Íslendinga verða dýrari.

Allt þetta kallar ríkisstjórnin að skattleggja breiðu bökin og félagslegt réttlæti. Einkennileg er hennar réttlætiskennd.

Höfundur er alþingismaður.

 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×