Skuldir Reykjavíkurborgar nema 360 prósentum af árstekjum borgarinnar. Ef hugmyndir að nýjum sveitarstjórnarlögum verða að veruleika mega sveitarfélög ekki skuldsetja sig meira en sem nemur 150 prósentum af árstekjum þeirra.
Engar takmarkanir eru í gildandi lögum um skuldsetningu sveitarfélaga og sum þeirra fóru of geyst í góðærinu, eins og t.d sveitarfélagið Álftanes, en skipuð hefur verið fjárhaldsstjórn yfir Álftanesi og er það aðeins í annað sinn í sögunni sem slíkt gerist.
Eins og komið hefur fram er verið að skoða breytingar á lögum um sveitarfélög sem ganga út á að sveitarfélög megi ekki skuldsetja sig umfram upphæð sem nemur 150 prósentum af árstekjum þeirra, er þá miðað við bæði A-hluta og B-hluta í rekstri sveitarfélaga. Í B-hluta eru dótturfélög sveitarfélaga, eins og Orkuveita Reykjavíkur í tilviki Reykjavíkurborgar. Í A-hlutanum er rekstur sem að mestu er fjármagnaður með skattfé. Ef þessar hugmyndir um breytingar í sveitarstjórnarlögum verða að veruleika munu þær hafa mjög mikil áhrif á Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög.
Eins og sést á þessari töflu (sjá myndskeið í frétt) á grundvelli upplýsinga úr fjárhagsáætlun borgarinnar, þá eru skuldir samstæðunnar í Reykjavíkurborg alls 326 milljarðar króna, þ.e samtals bæði A-hluta og B-hluta. Samkvæmt áætlun ársins 2010 verða heildartekjur tæplega 90 milljarðar króna. Eins og sést hér er hlutfall skulda af árstekjum þrjú hundruð og sextíu prósent. Það þarf því ansi mikið að breytast í rekstri borgarinnar ef markmiðum um 150 prósent á að nást, en forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa sagt nokkurra ára aðlögunartíma æskilegan ef hugmyndirnar verða að veruleika.
Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins funduðu í dag með Birgi Birni Sigurjónssyni, fjármálastjóra Reykjavíkurborgar og embættismönnum borgarinnar vegna hugmynda um að draga úr skuldsetningu sveitarfélaga.
Birgir Björn sagði í samtali við fréttastofu að það væri í verkahring stjórnmálamanna að leggja línurnar og skýra stefnumótun en sagði samt að það væri ekkert því til fyrirstöðu að sveitarfélög reyndu að sjá til þess að fyrirfram skilgreindu hlutfalli yrði náð, þ.e að skuldbindingar vegna A- og B-hluta rekstrar væru ekki hærri en 150 prósent af árstekjum.