Skoðun

Ráðherra hittir nagla á höfuðið

Einar K. Guðfinnsson skrifar

Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra vakti á því athygli á Alþingi sl. fimmtudag að þau úrræði sem ríkisstjórnin hefur gripið til varðandi skuldavanda heimilanna hafi frekar „gagnast þeim sem höfðu meira undir í aðdraganda kreppunnar heldur en þeim sem voru verr staddir. - Og það tel ég að þurfi að skoða sérstaklega", sagði ráðherrann

Bragð er að þá barnið finnur.

Hér talar ráðherra í ríkisstjórninni og hittir naglann á höfuðið. Það er ljóst að aðgerðir ríkisstjórnarinnar á þessu sviði hafa verið í algjöru skötulíki. Um það þarf ekki að deila. Þetta er álit almennings. 91% aðspurðra í skoðanakönnun sem ASÍ lét gera í upphafi þessa mánaðar eru þessarar skoðunar. Athyglisvert er að þetta er sama niðurstaðan og í júní í fyrra. Almenningur metur það svo að ekkert hafi gerst í málefnum heimilanna.

Það er þó ekki rétt. Því mikið hefur verið talað. Í þriðja sinn er svo núna verið að fresta nauðungaruppboðum, sem segir okkur einfaldlega að úrræðin eru ekki að virka. En á meðan á frestun stendur, telja dráttarvextirnir. Þegar allt kemur til alls eykur þessi frestun því vanda fólks enn; nema auðvitað úrræði líti dagsins ljós í milli tíðinni.

Á þeim bólar hins vegar ekki. Engin fyrirheit eru gefin úr ríkisstjórninni um slíkt. Og það þrátt fyrir að heilbrigðisráðherrann viðurkenni að hingað til hafi ekki verið litið nóg til þeirra sem hafi minnstar tekjurnar og segi það síðan umbúðalaust að þeir sem helst njóti úrræða ríkisstjórnarinnar séu þeir sem mest höfðu undir.

Kjarni málsins er þá þessi, sem ráðherrann er í rauninni að segja. Ekki hefur verið litið til tekjulægsta hópsins, ekki hefur verið litið til alls almennings. Þeir sem nutu athygli ríkisstjórnarinnar voru þeir sem höfðu meira undir, fjárfestu meira, skulduðu meira og þénuðu meira. Þetta verður ekki sagt öllu afdráttarlausar.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×