Skoðun

Eini kosturinn í stöðunni?

Fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þeirri ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands að synja Icesave-lögunum staðfestingar veldur miklum vonbrigðum. Í stað þess að hafa forystu í því að berjast fyrir sjónarmiðum okkar gagnvart hinum harðskeyttu viðsemjendum okkar í Bretlandi og Hollandi, er magnaður upp makalaus hræðsluáróður hér innanlands, sem stórskaðar stöðu okkar erlendis.

Við aðstæður eins og þessar þurfum við á öllu öðru að halda. Þjóðin þarf að sýna samstöðu. Ríkisstjórnin getur þess vegna ekki leyft sér að beina spjótum sínum inn á við. Henni ber að sameina en sundra ekki. Þarna hefur hún hins vegar brugðist veigamesta hlutverki sínu.

Fyrir liggur að ríkur þjóðarvilji stendur til þess að hafna núverandi Icesave-samkomulagi. Við vitum hins vegar jafn vel að nauðsynlegt er að leita lausnar á þessari alvarlegu milliríkjadeilu. Enginn talar fyrir því að viðhalda því ástandi sem nú ríkir.

Við vitum öll að án niðurstöðu í deilum okkar við Hollendinga og Breta erum við í vanda. En hitt er líka jafn ljóst að samningurinn sem er á borðinu er okkur alltof dýrkeyptur og mun valda hér stórfelldum vandræðum um ókomin ár. Verkefnið er að breyta þeirri stöðu.

Valkostirnir eru ekki núverandi samningur eða ófriður við Breta og Hollendinga. Okkur ber að láta á það reyna að við komumst að öðru samkomulagi. Forsenda þess er að ríkisstjórnin láti af þeim óvana sínum að efna sífellt til pólitísks innanlandsófriðar. Málið snýst nefnilega ekki um að bjarga andliti stjórnvalda, eins og ætla má af tali ráðherranna. Verkefnið er að vinna að þjóðarhag.

Höfundur er alþingismaður.








Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×