Skoðun

Þrjár rýtingsstungur á einni viku

Einar K. Guðfinnsson skrifar um ríkisstjórnarsamstarfið

Hjá Samfylkingunni hafa menn greinilega talið að komið væri að því að kenna samstarfsaðilunum hjá Vinstri grænum lexíuna. Láta þá vita hverjir réðu. Það var svo gert í vikunni, ekki einu sinni heldur þrisvar.

Fyrst þegar sett var á svið leikrit í þinginu þar sem samfylkingarþingmaður spurði forsætisráðherrann um hvort nokkur bilbugur væri á því að sameina atvinnuvegaráðuneytin þrjú. Þetta var gert strax í kjölfar þess að VG hafði ályktað gegn slíkum áformum. Svar forsætisráðherra var skýrt. Jú við sameinum og VG er skuldbundið okkur með stuðning við það mál. Þar höfðu þeir það.

Næst þegar ráðherra úr liði VG hafði sett fram sjávarútvegsfrumvarp og ætlaði að láta tekjur af veiðileyfauppboði renna til sjávarbyggðanna sérstaklega. Samfylkingin notaði tækifærið, með aðkomu iðnaðarráðherrans, til þess að hverfa frá þessum byggðasjónarmiðum og ráðstafa fjármunum þessum til annarra hluta. Alls 150 milljónum króna. Með öðrum orðum, vilji ráðherrans sem málið flutti var að engu hafður. Vaðið var inn í frumvarpið og fjármagninu svissað yfir í allt aðra farvegi en ráðherra málaflokksins vildi.

Og loks var það forsætisráðherrann enn, sem viðraði efasemdir sínar um hinn sérstaka trúnaðarmann fjármálaráðherrans í Icesave-samninganefndinni, eins og hún gerði í Kastljósinu sl. miðvikudag. Fjármálaráðherrann hefur réttilega sagt að gagnrýninni eigi ekki að beina gegn embættismönnum heldur stjórnmálamönnum. Honum var því ljóst að gagnrýninni var ekki í raun ætlað að hitta embættismanninn fyrir, heldur forystu VG. Þess vegna hrópaði hann vanstilltur að það væru ógeðfelldar mannaveiðar þegar menn gagnrýndu embættismanninn. Hann tók orð forsætisráðherrans til sín og það með réttu. Fjármálaráðherrann kaus að beina reiði sinni að stjórnarandstöðunni, en meinti auðvitað forsætisráðherrann. Gamla Albaníuaðferðin var endurfædd. Það var öllum ljóst sem á hlýddu.

En VG drúpir höfði, beygir sig í duftið og hlýðir eins og fyrri daginn.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×