Skoðun

Þessi pistill á að vera óþarfur

Gunnar Hansson skrifar
Til að byrja með vil ég taka það fram að það á ekki að þurfa að skrifa þennan pistil. Ekki árið 2011!

Ég var beðinn um að skrifa um eitthvað sem tengdist kynbundnu misrétti. Ég hélt það nú. Frábært málefni sem ég hef mjög sterkar skoðanir á og ég vildi endilega leggja mitt lóð á vogarskálarnar. En svo fór ég að skrifa og þá fór tími minn aðallega í það að stroka út. Mér fannst ekkert sem ég skrifaði vera nógu gott né nógu sterkt fyrir svona gott málefni. Ég vildi ekki gera grín, því þó að samskipti kynjanna kalli mjög auðveldlega fram brandara, marga mjög slæma, en nokkra ágæta, þá langaði mig ekki til þess að skrifa djók-pistil. Það er oft vörn hjá mér að djóka með það sem er viðkvæmt, ég vildi standast það í þetta sinn. Svo vildi ég heldur ekki vera með predikunartón. Skamma hina og þessa fyrir slæma frammistöðu í þessum málum.

Mér finnst því miður vera allt of mikið um slíkan tón í dag í umræðunni um hin ýmsu málefni. Ég er þreyttur á því. Ég endurtek: Það á enginn að þurfa að skrifa pistil gegn kynjabundnu misrétti árið 2011 for kræing át lád! Það er fáránlegt. Að konur þurfi að berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum eins og að fá sömu laun fyrir sömu vinnu og karlar. Að einstæðir feður þurfi að berjast fyrir því að fá að umgangast börnin sín til jafns á við mæðurnar. Það getur ekki verið að neinn vilji viðhalda svona löguðu. Það vilja allir vel. Ég trúi því að minnsta kosti. Ég á tvær dætur og einn son. Ég vil að dætur mínar fái sömu tækifæri og sonur minn og öfugt. Þetta verður þannig, það er óumflýjanlegt. Það er engin glóra í öðru. Hættum bara að streitast á móti. Þetta þarf engan veginn að vera stríð milli kynjanna, miklu heldur faðmlag. Hlýtt og gott.



+++++++++++++++++

Öðlingurinn 2011 er vitundarvakning. Átakið stendur yfir í mánuð, frá bóndadeginum (21. janúar) til konudagsins (20. febrúar).

Markmið þess er að stuðla að opinni umræðu um jafnrétti kynjanna á Íslandi. Nánar á heimasíðu átaksins, odlingurinn.is.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×