Skoðun

Með þökk fyrir allt

Bergur Ebbi Benediktsson skrifar
Á árunum undir lok og fljótt eftir seinna stríð fæddist það fólk sem hefur byggt upp Ísland nútímans. Þetta fólk, sem sleit barnskóm sínum á sama tíma og lýðveldið okkar, er af þeirri kynslóð sem man eftir skorti, haftastefnu, harmonikkuböllum og síðar bítlum, verbúðum, námsmannabyltingum og þeirri tilfinningu að sitja við kertaljós í skammdeginu og finna eplalykt á jólum. Við eigum þessu fólki margt að þakka. Kannski of margt.

Þetta er kynslóðin sem færði okkur Þorskastríðin og kvótakerfið. Afnám gjaldeyrishafta og upptöku þeirra aftur. Þetta er kynslóðin sem á 7. áratugnum krafðist náms- og íbúðarlána til handa ungu fólki sem eru lífsgæði sem ungt fólk nýtur enn í dag (að vísu með því skilyrði að þurfa að greiða lánin aftur blikk blikk), kynslóðin sem kom okkur í EES, Schengen og næstum í Öryggisráðið, kynslóðin sem færði okkur litasjónvarp og rauðsokkubyltinguna. Þetta er kynslóðin sem fékk þá hugmynd að Ísland gæti orðið alþjóðleg fjármálamiðstöð en líka þá hugmynd að framtíð þjóðarinnar lægi í refarækt, kynslóðin sem færði okkur hugmyndina um að best væri að sökkva hálendinu en líka hugmyndina um að við þyrftum að bjarga því aftur. Þetta er kynslóðin sem breytti Sjálfstæðisflokknum úr síldarslorugum Dunhill hatti yfir í Hugo Boss (og aftur til baka), Framsóknarflokknum úr lopa í flís og Alþýðuflokknum úr bláum galla verkamannsins yfir í ný föt keisarans. Þetta er kynslóðin sem afnam skatta á blaðið en setti nýja á skaftið. Þetta er kynslóðin sem færði okkur lausnirnar og vandamálin, hugsjónir og skipbrot þeirra, hlýja drauma en líka hljóð vekjaraklukkunnar. Þetta er gott fólk. Þetta er kynslóð foreldra minna. Þetta er fólkið sem ól okkur upp og ég er fullur þakklætis. Þau hafa stjórnað okkur svo lengi og hringlað svo oft í heimsmynd okkar að við erum næstum orðin háð því að hafa þau yfir okkur.

En nú er þetta komið gott. Við megum ekki gleyma því, við unga fólk á öllum aldri, að við ráðum framtíð okkar. Ég meina þetta af einlægni: Ég vil þakka þér fyrir þjónustuna Ólafur Ragnar Grímsson. Sem þakklætisvott kýs ég Þóru Arnórsdóttur sem forseta Íslands.








Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×