Skoðun

Á Alþingi er vald

Björn Leví Gunnarsson skrifar
Í annarri grein stjórnarskrár Íslands er meðal annars ritað: „Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið." Hvað með það? Jú, þetta er dálítið áhugavert að skoða. Alþingi fer með löggjafarvald. Alþingi beitir valdi. Af því leiðir að alþingismenn beita valdi.

Þrátt fyrir að það sé örugglega ekki ætlunin með stjórnarskránni að alþingismenn beiti Íslendinga valdi þá má ekki annað sjá en að það sé einmitt útkoman. 20. október sögðu 84.633 manns „já" við auðlindaákvæðistillögu stjórnlagaþings, 74% þeirra sem greiddu atkvæði. Í nýlegu frumvarpi til breytinga á stjórnarskrá sem var samþykkt með 38,1% kveður á um að 40% allra sem eru á kjörskrá verða að samþykkja breytingar á stjórnarskrá. Þann 20. október sögðu 82.633 „já", það eru 35,7% allra sem voru á kjörskrá.

27. mars sögðu fimm formenn flokka „nei". Nei við auðlindaákvæði, nei við möguleikanum á að stjórnarskrá þjóðarinnar verði samþykkt á næsta kjörtímabili, nei við þjóðina. Þeir beittu valdi til þess að koma atkvæðakaupamálum í gegnum þingið. Þeir beittu valdi til þess að verja hagsmunaaðila aðra en þjóðina. Þeir beittu valdi og útrýmdu leynilegum kosningum til breytinga á stjórnarskrá á næsta kjörtímabili. Hver sá sem mætir á kjörstað er þar til þess að segja já. Sá sem ætlar að kjósa nei getur bara setið heima nema ef kosningaþátttaka myndi fara yfir að minnsta kosti 80% (hefur aldrei gerst í slíkum þjóðaratkvæðagreiðslum). Fimm á móti 84.633.

Kjósið ykkur sjálf

Eina leiðin til þess að koma í veg fyrir þessa valdbeitingu er að mæta á kjörstað í kosningum 27. apríl og koma í veg fyrir að þeir flokkar sem stóðu fyrir tillögunni fái meirihluta til þess að staðfesta hana á næsta þingi. Kjósendur munu nefnilega ekki fá tækifæri til þess að segja skoðun sína á þessari breytingu í beinni atkvæðagreiðslu. Ef Framsókn, Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin, Vinstri grænir og Björt framtíð fá yfir 50% kjörgengi þá munu þessir flokkar samþykkja breytinguna á stjórnarskránni og tækifærið til þess að fá stjórnarskrá þjóðarinnar verður glatað þangað til eftir næsta kjörtímabil, 2017!

Alþingi er ekki ætlað að beita valdi þó að önnur grein stjórnarskráarinnar tilgreini löggjafarvald. Alþingi er ætlað að vera þjónusta við samfélagið, fyrir samfélagið. Þeir þingmenn sem setjast á þing undir orðunum „löggjafarvald" munu sjálfkrafa beita valdi, orðsins vegna. Píratar skilja hins vegar að Alþingi er þjónusta við samfélagið. Píratar skilja beint lýðræði. Píratar skilja „löggjafarþjónustu".

Kjósið Pírata, kjósið allt annað en flokka sem níðast á stjórnarskránni. Kjósið flokka sem skilja þjónustuhlutverkið. Ekki kjósa vald, kjósið ykkur sjálf.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×